Ósambúðarhæfa kynslóðin

Því hefur verið fleygt fram í gamni – þó glöggt megi skynja beiskan og grámyglaðan undirtón – að tíðni skilnaða muni ná hámarki eftir Covid-19 ævintýri heimilanna. Ég er ein af þessum „heppnu“ sem þarf ekki að spá í þessu.

Heppnu - innan gæsalappa -  því ég gjóa oft með öfundaraugum á þá sem eru í samböndum.

Heppnu – án gæsalappa – því ég vil frekar vera ein heldur en að taka þátt í allri þessari gremju og fýlu og þögnum og öllum þessum ljótu athugasemdum sem ég sé svo oft fljúga á milli para.

Við leitum í sambönd af því að þau eiga að gera lífið betra. Þau eiga að láta okkur líða betur. Í það minnsta ættu sambönd að draga úr einmanaleika okkar en ekki auka á hann. Að auka lífsgæðin en ekki að draga úr þeim. Já, veistu, ég hef þá skoðun að sambönd ættu að einfalda lífið en ekki flækja það!

En við þarna sem erum í kringum fertugt virðumst vera kynslóðinn sem er ósambúðarhæf. Við erum kynslóðin sem leitar að tímabundnum hoppfélögum á Tinder af því að við nennum ekki einu sinni orðið að hafa fyrir því að fara á ball til að pikka upp eitthvað korter-í-þrjú dæmi.

Af því að það er frumþörf mannfólksins að tilheyra, vera elskuð og að elska, þá leitum við alltaf í einhverskonar sambönd. En af því að við erum orðin svo hrikalega slök í samskiptum og illa brennd þá viljum við þau samt ekki.

Við viljum nándina og innileikann, allt knúsið og hoppið og alla gleðina en við nennum ekki veseninu.

Og ég skil það vel því margt af því sem fólk er að upplifa er afskaplega raunverulegt og sársaukafullt vesen.

Það er fólk í kringum mig sem fær ekki að hitta börnin sín út af veseni við fyrrverandi maka.

Það er fólk í kringum mig sem þarf að velja á milli þess að hafa núverandi maka góðan eða að eiga í góðu sambandi við börn af fyrra sambandi.

það er fólk í kringum mig sem þarf að velja á milli þess að eiga í góðu sambandi við maka sinn eða fylgja draumunum sínum.

Það er fólk í kringum mig sem hefur verið sært svo djúpu hjartasári að það er aldrei nokkurn tímann að taka sénsinn á að hleypa nokkrum nógu nálægt sér aftur.

Kannski er ég barnalega einföld að halda að þetta þurfi ekki að vera svona. Að við þurfum ekki að vera í einhverjum haltu mér-slepptu mér leikjum eða láta eins og okkur sé alveg sama. Kannski er ég barnalega einföld að trúa enn á eitthvað happily-ever-after dæmi og láta ekki segjast þrátt fyrir að hafa verið brennd nokkrum sinnum á sömu bévítans hellunni.

Ég held nefnilega að rót vanda hinnar ósambúðarhæfu kynslóðar megi finna í þeirri löngun okkar að vilja hafa lífið vesenislaust en kannski umfram allt að lifa í þeirri barnslegu trú að það sé yfirhöfuð mögulegt.  Ég held að það hafi hreinlega gleymst að kenna kynslóðinni minni að takast á við vandamál og vesen svo við einfaldlega höfum náð að meistra vesenisforðum með stórglæstum hætti.  

Ég er sjálf með doktorsgráðu í að forðast vesen. Í gegnum tíðina þá hef ég flogið öfganna á milli; að vita ekki hvernig ég á að höndla tilfinningar þannig að ég  annað hvort lokað á fólk og hneykslast yfir enn einu dramakastinu eða dottið sjálf í tuð, óöryggi og að finnast ég þurfa að hafa alla góða í kringum mig. Við erum kynslóðin sem kann ekki að feta þennan margumtalaða gullna meðalveg.

En nú skal þessari gráðu hent í ruslið í eitt skipti fyrir öll. Ég er alltaf að sjá betur og betur hvernig það að forðast vesen hefur ekki hjálpað mér fyrir fimmeyring í neinum samböndum sem ég hef átt í hingað til. Gott ef það hefur bara ekki dregið mig lengra niður í skítinn og gert hlutina enn verri en áður.

Það sem ég hef líka séð er að öllum samböndum fylgir eitthvað vesen. Það skiptir ekki máli hvort það eru sambönd við maka eða mömmu eða systur eða börnin eða vini. Það fylgir öllum eitthvað vesen. Það virðist eitthvað tengjast því að fæðast sem manneskja.  

En veistu, vesenið snýst ekki um fólkið sjálft. Vesenið kemur eingöngu útfrá því að forðast eins og heitan eldinn að taka nauðsynleg vesenis-samtöl. Erfiðu samtölin. Leiðinlegu og óþægilegu samtölin. Að segja frá því sem skiptir mann máli. Hvar mörkin liggja. Hvað maður hræðist og hvað gerir mann óöruggann. Hvað særir, meiðir og móðgar. Hvað gleður og hvar viðkvæmir draumar liggja. Að taka nauðsynlegar umræður um peninga, börnin og fyrrverandi maka; um ósigra, mistök og vonbrigði lífsins. Þú veist. Venjuleg vesenis-samtöl.

Mig langar að segja þér sögu. Hetjusögu. Og ég er með leyfi til að segja hana, svo því sé haldið til haga. Fyrir þremur árum átti ég unglingakrútt sem var í kvíða og sjálfsskaða. Það var vesen. Veistu, það var bara drullu-djöfuls fokk vesen ef ég á að vera alveg heiðarleg. Ekki af því að hann var svona erfiður. Af því að ég þurfti að gera svo margt sem ég hafði aldrei gert áður. Ég þurfti að taka margar vesenis ákvarðanir og mörg vesenis samtöl. Ég þurfti að læra að hlusta á hans forsendum, ég þurfti að læra að standa með honum, ég þurfti að læra að setja mörk og ég þurfti að læra að tjá mig í allri þeirri mestu einlægni sem ég átti til, til að geta náð til hans. Þetta er það allra, allra erfiðasta verkefni sem ég hef nokkurn tíma tekist á við. En við komumst nokkuð heil í gegn – og lærðum á átakalega sársaukafullan hátt hversu skaðlegt það er að forðast vesen og erfið samtöl.

Þessi sami sonur segir svo oft við mig, segðu mér það bara, ég les ekki hugsanir! Svo nú ætla ég að taka hann til fyrirmyndar og segja mínum  nánustu hvað þau skipta mig miklu máli. Af því að enginn hefur lofað mér morgundeginum og lífið hefur svo sannarlega kennt mér að taka fólki ekki sem sjálfsögðum hlut.

Ég vona innilega að þú nennir smá veseni og gerir það sama fyrir þitt fólk â¤ï¸ 

 


Bjánaskapur í samskiptum

Ég hef oft verið óttalegur bjáni í samskiptum sem hefur kostað mig gleði, vellíðan og þá nánd sem mig hefur alla tíð dreymtum. Og ef samskiptafærni mín á þeim tíma hefði verið metin til einkunnar þá hefði ég sennilega fengið falleinkunn.

Sennilega hefði einkunnarspjaldið mitt litið einhvern vegin svona út:

 

Tjáir þarfir, skoðanir og langanir: D

  • Athugasemdir: Er hrædd við að segja eitthvað vitlaust, rugga bátnum, koma af stað leiðindum að óþörfu.

kamstjáning: C-

  • Athugasemdir: Notar “svipinn” óspart til að koma skoðunum á framfæri. Segir með hegðun það sem hún á engan hátt getur sagt með orðum. Er þó almennt frekar kurteis sem telst henni til tekna. 

Viðbrögð við vonbrigðum, gagnrýni eða öðrum óþægilegum aðstæðum: D

  • Athugasemdir: Bregst harkalega við, dregur sig í skelog/eða lokar á fólk ef henni finnst á sig ráðist, það sé verið að stjórnast í henni eða sé gefið í skyn að hún sé ekki nógu klár, dugleg eða góð.

Sáttartilburðir: D

  • Athugasemdir: Fýlugjörn og á afar erfitt með að biðjast afsökunar og sættast eftir ágreining.

 

Ekkert sérlega glæsilegur vitnisburður. Og líðanin var eftir því.

Frá því að ég man eftir mér hefur hjartað mitt þráðþýðingamikil, innileg og einlæg samskipti. Þú veist, *alvörusamskipti. En ég bara kunni ekki samskipti og vissi ekki að það væri hægt að læra það. Ég í alvöru hélt að manneskja sem væri jafn feimin og óframfærin og ég var, væri einfaldlega dæmd til að vera einmana það sem eftir væri – að ég myndi deyja með öll ósögðu orðin mín innra með mér.

Ég var svo hrikalega hrædd um að fólk þætti minna til mín koma ef ég viðurkenndi vanlíðan, veikleika eða óöryggi, ég fann ekki hugrekkið mitt til að segja það sem mér bjó í brjósti. (Sko... Ef ég á að vera alveg heiðarleg að þá leitaði ég ekkert sérlega mikið að þessu hugrekki. Það var einfaldlega of auðvelt að ræða ekkert óþægilegt, tækla ekkert óþægilegt og hafa bara samskiptin góð – þú veist, svona  yfirborðsgóð). Svona voru mín bernskuár, unglingsár og fullorðinsár… þangað til að ég gat ekki meir.

Þar til að ég átti ekkert eftir. Algerlega tóm.

Þetta er stöðug vinna að hafa alla góða í kringum sig og ræða aldrei neitt óþægilegt og það var algerlega að tæta mig upp. Í hreinni og tærri örvæntingu tók ég þá ákvörðun að lífið væri einfaldlega ekki þess virði að lifa ef ég yrði að vera án þeirrarnæringar sem djúp, einlæg, alvöru samskipti gefa mér. Einmannaleikinn var einfaldlega orðinn of sár.

Hvort sem var í sambandi eða í öðrum samskiptum, þá voru ósögðu orðin alltaf farin að meiða meira og meira. Taka meiri toll af gleði minni, vellíðan og heilsu því þau sköpuðu sífelltmeiri gjá milli mín og þeirra sem skiptu mig hvað mestu máli í lífinu. (Sem er auðvitað fáránlegt, því þessi gjá var það sem ég var að reyna að forðast með að halda öllum góðum og ræða ekkert óþægilegt).

En þetta gerum við. Aftur og aftur. Sköpum gjá á milli okkar og þeirra sem okkur þykir vænt um. Við ýtum fólki frá okkur í vonbrigðum, reiði og ótta í staðinn fyrir að segja fólki frá því sem raunverulega er plaga okkur, það sem raunverulega er að gerast í okkar lífi, hvernig okkur raunverulega líður.

Af hverju eru heilindi, blíð og góð samskipti og einlægni svona erfið og svona sjaldgæft milli fólks dag? Sérstaklega þegar þetta er það sem skapar nánd og traust og eykur umburðarlyndi, öryggi og vellíðan í samskiptum. Hluti sem flest okkar myndu gefa hægri handlegginn, lifur og lungu fyrir að upplifa reglulega í samböndum okkar.

Kannski liggur vandinn í að á ákveðnu tímabili voru fáar tilfinningar leyfðar. Einu sinni heyrði ég að það sem mátti var að vera glaður, vera reiður og vera fullur. Hvar lærir maður góð, heiðarleg og opin samskipti í svoleiðis samfélagi?  

Kannski fáum við það bara með móðurmjólkinni að harkan það eina sem komi manni áfram í lífinu. Bíta eða vera bitinn. Særa í stað þess að vera særður. Óöryggi, sjálfs-efi og skömm er það versta sem ég veit og ég geng oft ansi langt til að þurfa ekki að upplifa þær tilfinningar. Þá bít ég stundum óvart frá mér. Þó ég ætli það alls ekki, þá meiði ég mína nánustu einnamest þegar mér líður sem verst með sjálfa mig. Þegar ég þarf hvað mest á þeim að halda.

Kannski liggur vandinn í samfélagsmiðlum. Það er í tísku að vera filteraður í drasl, hvort sem það er í útliti, neyslu, hegðun eða hlutverkum. Engin raunveruleiki þar.

Með samfélagsmiðlunum hefur líka komið aukin dómharka í fólk. Minna um umburðarlyndi og við erum orðin svo óörugg með hvað má og hvað má ekki í samskiptum. Það þarf að vera ákveðið traust svo hægt sé að ræða erfiða hluti, atburði og tilfinningar. Það hvarflar ekki að mér að ræða eitthvað viðkvæmt ef það er notað gegn mér síðar meir.

En kannski er það ekkert af þessu og kannski er það sambland af mörgu. Og kannski skiptir það bara engu máli.

Nánd, innileiki og einlægni kostar oft blóð, svita og tár og allt það mögulega hugrekki sem maður nær að safna saman á einu augnablik til að hleypa einhverjum inn fyrir varnarmúrinn. Til að sýna allar þær tilfinningar sem er ekki lengur þess virði að læsa lengst niðri í kjallara.  Og stundum gerir maður þetta – gefur allt sem maður á og tjáir sig í allri þeirri mestu einlægni sem maður býr yfir en fer samt helsærður af vígvelli. En veistu, einlægnin er samt þess virði.

Lífið getur nefnilega verið sóðalegt, ósanngjarnt, ljótt og erfitt. Erfiðleikar lífsins verða aldrei yfirstaðnir. Og til að lifa alla erfiðleikana af þá þurfum við að hafa sterkt bakland. Stað þar sem er í lagi að vera óöruggur, fullur af sjálfs-efa og vanmætti. Þar sem okkur er óhætt að vera sorgmædd, döpur, sár og leið. Við þurfum baklandið að geta komist í gegnum skömmina, örvæntinguna og alla vanlíðanina. Við þurfum öruggt umhverfi til að geta brotnað, til að hafa næði að týna samanbrotin og til að byggja okkur upp að nýju.

Næringin í nándinni er okkur öllum nauðsynleg. Og einlægnin? Hún er algerlega þess virði.


Frelsið maður, frelsið!

 

Erfiðasta tilfinning sem ég hef nokkurn tíma upplifað er einmanaleikinn. Að vera umvafin fólki en treysta einhvernvegin engum nægilega mikið til að sjá hvernig ég raunverulega er. Þú veist, bakvið samfélagslegu samþykktu grímuna. Því ekki vil ég að neinn sjái hvernig ég er sífellt að tapa í fullkomnunarkeppni samfélagsins.

Við berum okkur saman við rotnaðar staðalímyndir, við markaðsetningu fjölmiðla á mikilvægi fegurðar & útlits og samkeppni samfélagsmiðla varðandi duglegheit, heppni & hamingju... og eigum ekki séns! Það er alltaf er sætari, flottari, duglegri, heppnari og hamingjusamari.

Af því að við höldum stundum að staða, útlit og hegðun okkar nánustu endurspegli  álit annarra á okkur sjálfum, þá veljum við jafnan að vera í samvistum við þá sem láta okkur líta vel út. Til að vera gjaldgengur vinur, maki eða ættingi þarf maður alltaf að vera nógu eitthvað. Nógu fyndinn & skemmtilegur, nógu fallegur & flottur, nógu metnaðarfullur og ríkur og/eða nógu glaður & hamingusamur. Vandinn er bara sá að þegar maður keppist við að vera gjaldgengur þá þarf maður að passa að hleypa enguminn fyrir skelina því þar er öll óreiðan, allt vesenið & óöryggið og allur ófullkomnleikinn sem enginn má sjá.

En af því að mig langar svo mikið að tilheyra einhverjum, að tilheyra einhversstaðar og vera gjaldgeng, þá geri ég þetta líka. Set upp grímuna og tek þátt í ruglinu - vitandi að það muni kosta mig heiðarleika, heilindi, nánd og einlægni.

Það hafa þó komið tímabil þar sem mér finnst einfaldara og auðveldara halda fólki bara í hæfilegri fjarlægð til að þurfa ekki stöðugt að vera réttlæta, útskýra og aðlaga mig að kröfum annarra. Mér finnst nefnilega auðveldara að eiga lítil samskipti við fólk heldur en yfirborðskennd - eða samskipti þar sem fólk telur sig vita betur en ég hvað mér er fyrir bestu 

Ég hef verið í samskiptum við fólk sem gerði það af góðmennsku sinni að taka það að sér það verkefni að fullkomna mig. Setningin “...þú værir svo fullkomin/frábær/góð ef...” er eitur í bein fullkomnunarsinnans og algert nándar-morð. Valið stendur þá milli þess að láta undan þrýstingi einhvers sem vill móta mann (af því að ég hef svo mikla þörf fyrir nánd) eða að spyrna á móti til að fá að vera maður sjálfur (af því að ég hef líka svo mikla þörf fyrir frelsi). Það sem ég er að læra er að valið þarf ekki endilega að standa milli nándar eðafrelsis. Ég get valið bæði!

Það er fullkomnunaráráttan (mín eigin og annarra í minn garð) sem heftir frelsið mitt, gleðina og svo sannarlega góðu og næringarríku samskipti milli mín og annarra. Nándin þrífst nefnilega ekki á yfirborði fullkomnunarinnar. Hún liggur í dýptinni, í ófullkomneikanum. Nándinliggur í því að kynnast því hvernig manneskjan raunverulega er og frelsiðliggur í því að vera samþykktur fyrir það sem maður er. Ég veit ekki með þig en eitt mesta frelsi sem ég get ímyndað mér er að leyfa einhverjum að sjá óöryggið mitt, óreiðuna og óskynsemina og vita til þess að þeim þykisamt vænt um mig. Í mínum huga er það skilgreiningin á því að “vera nóg”.

Kröfur um óaðfinnanlegt og óhaggandi sjálfstraust, útlit og framkomu er krabbamein í samskiptum og má finna út um allt og allstaðar. Við viljum ekki þurfa að skammast okkar fyrir þá sem standa okkur næst, viljum ekki þurfa réttlæta hegðun þeirra, viljum ekki þurfa að hafa áhyggjur af þeim eða teljum þau einfaldlega bara geta gert svo miklu betur í lífinu. Þess vegna reynum við að betrumbæta þau, bara svonaaðeins! En ef það virkar ekki, má alltaf nota fýlu. Við erum nefnilega snillingar í að skilyrða væntumþykju og velvilja. Ef fólk gerir ekki eins og við viljum, er besta ráðið að draga úr samskiptum, gagnrýna, útiloka, hafna - af því að það virkar bara svo vel!

(En auðvitað gerum við þá sjálfsögðu kröfu að fólk taki okkur, virði okkurog elski okkureins og við erum).

Ef við viljum dýpri og innilegri samskipti og meiri nánd og innileika þá þurfum við að breyta einhverju. Líklega mun fyrr frjósa í Helvíti heldur en að við sjáum aðra breyta samskiptamynstri sínu upp úr þurru. Til að eitthvað breytist, þurfum við að vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum.

Svo...

Í dag ætla ég að draga úr kröfum mínum á aðra og sjá það besta í þeim. Ég ætla að hafa í huga að hegðun annarra endurspeglar mig ekki á nokkurn hátt. Ég þarf því ekki að stjórna því hvað aðrir segja, gera eða hugsa. Ég get verið til staðar, ráðlagt eða leiðbeint ef til þess kemur en í dag ætla ég að muna að hegðun annarra er ekki á mína ábyrgð.

Í dag ætla ég því að njóta samvista við börnin mín, ættingja og vini og njóta þess sem þau eru en ekki hvernig þau ættu að vera - ef ég fengi að ráða!

Í dag ætla ég að leyfa mér að njóta þess að vera ófullkomin líka og hafa í huga að kröfur annarra til mín eru líklega kröfur sem þau gera sjálfs til síns - en geta í flestum tilfellum ekki staðið undir.

Í dag ætla ég að hafa í huga að skoðun annarra á mér er akkúrat bara það. Skoðun. Ekki staðreynd og ekki krafa sem ég verð að standa undir. Bara álit einhvers sem hann hefur rétt á að hafa. Og ég hef rétt á að hundsa.

Í dag ætla ég því að sætta mig við að ég get ekki gert öllum til hæfis, að ég mun sennilega valda einhverjum vonbrigðum ef ég ætla að fylgja eigin sannfæringu, hlú að mínum eigin þörfum og vera ég sjálf.

Í dag er ég frjáls til að njóta.


Konur sem prumpa

Ég hef stundum kallað sjálfa mig gallagrip, ekki af því að ég líti á mig sem annars-flokks einstakling (eða af því að ég prumpa), heldur einungis vegna þess að ég er blessunarlega laus við fullkomnun - eins og allar aðrar manneskjur sem hafa stigið hér á jörð.

Almennt séð þá hef ég hingað til talið þetta vera staðreynd frekar en skoðun. Þú veist, þetta með að enginn sé fullkominn og allt það. En ég verð að viðurkenna að undanfarið er ég dáldið farin að efast. Þegar ég les samfélagsmiðlana og kommentakerfin líður mér stundum óþægilega – svona eins og ég sé eini gallagripurinn í kerfinu. Svo tala ég við fólk og fæ þessa „hjúkket“ tilfinningu. Það er til fólk eins og ég. Fullt af því meira að segja. (Tvöfaldur broskall á það).

Ég veit ekki með þig en einhvern veginn finnst mér umburðalyndi fyrir samferðafólki okkar, ólíkum skoðunum og mannlegu eðli hafa farið hnignandi. Allt sem ekki er eins og okkur finnst það ætti að vera (í hinum fullkomna heimi, hjá hinu fullkomna fólki) fordæmum við sem „rangt“, „vitlaust“ og „heimskulegt“. Við gerum þær kröfur að fólk hagi sér í alla staði óaðfinnanlega, líti óaðfinnanlega út, eigi óaðfinnanlegt heimili, næli sér í óaðfinnanlega menntun, streði að óaðfinnanlegum starfsframa og ali upp óaðfinnanleg börn. Og sé auðvitað í óaðfinnanlegu hjónabandi. Að öðrum kosti sjáum við okkur tilneydd til að tjá okkur um það á opinberum vettvangi þó við þekkjum ekkert til þessa fólks eða aðstæðna þess.

Og sá vinnur leikinn sem er mest óaðfinnanlegur, hljómar eins og uppskriftin að hamingju til  æviloka. Einfalt. Skothelt.

Skelfilegt.

Þessi krafa um fullkomnun og óaðfinnanlega hegðun, útlit og árangur er að gera út af við okkur og þá ekki síst börnin okkar. Um 20% barna eru að kljást við geðræna erfiðleika sem má að miklu leiti rekja til samfélagsmiðla og þeirra krafna sem samfélagið gerir um fullkomnun. 

Við erum tilbúnari að setja börn á geðlyf heldur en að reyna að skilja þarfir þeirra og breyta kröfum okkar, því erfið og ófullkomin börn eru ekki sérlega vel liðin í samfélagi fullkomnunar. Ekki heldur fólk sem er að kljást við þunglyndi, kvíða og aðrar erfiðar tilfinningakrísur. Ég tala nú ekki um ef þú ert karlmaður. Þú veist, karlmenn gráta ekki og eiga ekki sýna tilfinningar og allt það. Þeir eiga líka alltaf að vera einlægir, blíðir og rómantískir en samt stundum svoldið dularfullir, óheflaðir og töff en umfram allt eiga þeir að geta lagfært allt heimafyrir því annars eru þeir aumingjar sem engin not eru í.

Í hinum fullkomna heimi eiga konur einnig að haga sér óaðfinnanlega, vera blíðar og ljúfar og prumpa bara helst ekki. Ef þær eru með mjúkan maga, eiga þær alls ekki að fara ekki bikiní og eðlilega ættu þær alltaf að vera í megrun til að vera ekki settar í hinn skelfilega „annan flokk“ mannkyns. Þó konur eigi að vera blíðar og ljúfar, megum við samt ekki að vera vitlausar og trúgjarnar og treysta því að fólk haldi loforð. En hey! Það góða við fullkomin samfélög, er að það leyfir heldur ekki gamla karla með úreltar skoðanir. Gott betur en það, allir sem ekki hafa „réttu“ skoðanirnar eru fordæmdir. 

Ég dáist endalaust að fólki sem enn hefur kjarkinn í að hafa skoðun þegar viðurlögin fyrir  „ranga skoðun“ er opinber rasskelling.  Með tilkomu kommentakerfisins og samfélagsmiðla höfum við náð nýjum víddum í skoðunum á skoðunum. Í hinu fullkomna, óaðfinnanlega samfélagi okkar höfum við nefnilega náð að gera hið ómögulega; að þróa hina einu réttu skoðun.

Einhvern tíma heyrði ég því fleygt að karlmenn mættu sýna þrjár „tilfinningar“; þeir mættu vera glaðir, reiðir og fullir. Að sama skapi er bara pláss fyrir tvær skoðanir; hina réttu (sem er, þú veist, þín skoðun – en er samt að öllum líkindum skoðunin sem hinn háværi meirihlutinn aðhyllist. Hin týpíska íslenska hjarðhegðun, skilurðu) og þá röngu  (sem eru allar hinar [kjánalegu] skoðanirnar sem hinn háværi meirihluti er á móti – og þú þá auðvitað líka).

Það að hafa skoðun er allt í einu orðið að einhverskonar like-keppni samfélagsmiðla og tilefni til persónulegra árása á kommentakerfum. Eins fáránlegt og þetta hljómar, þá er þetta sorglegur raunveruleiki margra og við hin tökum þátt með því að skiptast í fylkingar, með eða á móti.

Það gerist hins vegar í gegnum þroskaferli erfiðleika og sjálfsskoðunar að við sjáum að heimurinn er ekki bara svartur og hvítur, heldur með 50 gráa litatóna og um 10 milljónir annarra litategunda sem augað nær að greina.  Erfiðleikar, sársauki, þjáning og margskonar mistök gerir það að verkum að við sjáum mannlega, ófullkomna hegðun annarra í öðru ljósi. Við öðlumst þann hæfileika að geta sett okkur í spor annarra og séð hluti frá mörgum ólíkum sjónarhornum, þar sem hluti af okkur getur verið að einhverju leiti sammála einum meðan annar hluti af okkur getur áttað sig á sjónarmiðum hins. Með auknum þroska sjáum við líka að maður þarf ekki endilega að vera á móti einum til að vera sammála hinum. Maður getur jafnvel séð (mismikla) skynsemi í skoðunum beggja. Eða verið algerlega ósammála báðum. Og svo má maður líka skipta um skoðun. En það allra dásamlegasta við þroskann er að átta sig á því að maður þarf ekki að niðurlægja fólk opinberlega fyrir það eitt að hafa aðra skoðun en þá sem maður sjálfur aðhyllist.

Það þarf þroska til að ræða viðkvæma hluti á málefnalegan hátt og sennilega þyrfti hin íslenska þjóð allhressilega þjálfun í málefnalegum umræðum því oftar en ekki er farið í persónulegt skítkast þegar rök skortir. Við þurfum að hafa það að leiðarljósi að finna lausnir og stuðla að betra, manneskjulegra og umburðalyndara samfélagi, þar sem karlar mega gráta, konur mega prumpa og börn þurfa ekki að kvíða framtíðinni.  

Sem er það allt þetta snýst jú um…  eða hvað?

 


Venjuleg, týpísk meðal-Hrefna

Ég er þessi týpíska meðalmanneskja og hef líklega alltaf verið.

Týpískur Íslendingur sem ber lítið á,  í meðalhæð og þyngd, með venjulegt mosabrúnt íslenskt meðalhár. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig fólk hefði lýst mér hefði ég týnst, því klæðnaðurinn minn hefur í gegnum tíðina verið afskaplega týpískur íslenskur meðalklæðnaður. Svartur. Mesta lagi grár eða dökkbrúnn.  Ætli það hafi ekki mest farið eftir skapferli og „dirfsku“ dagsins hversu langt frá svarta litnum ég þorði.

Og ég átti mér svo sannarlega draum um að rífa mig upp úr þessari meðalmennsku. Draumurinn var að sjálfsögðu óendanlegt ríkidæmi, frægð,  ólýsanleg fegurð og eftirtektaverður kroppur. Ætli ég hefði ekki  gert mér að góðu að öðlast bara eitt af þessu, en nei. Bara þetta týpíska, venjulega meðal á mig. Vú. Hú.

Þið sem hafið einhverja sérstöðu til að bera munið sennilega aldrei skilja þá kvöl og pínu sem liggur í meðalmennskunni. Við það að falla í skuggann og týnast í fjöldanum. Manni langar svooo mikið til þess að hafa eitthvað til að bera, að það er nánast sama hvað er, bara eitthvað sem vekur eftirtekt eða öfund.

Þannig  heldur maður inn  í fullorðinsárin, sannfærður um að ríkidæmi, frægð, fegurð og allt hitt sem vekur öfund annara, sé það sem muni gera mann hamingjusaman.

Öll orka unglings- og fullorðinsára fer í að skapa persónu sem við teljum vera öfundsverða  og um leið að þagga niður í þeim Gallagrip sem við raunverulega erum. Þessum Gallagrip sem hefur oft allt aðrar hugmyndir um lífið og tilveruna, langanir og þarfir heldur en þessi „fullkomna persóna“ sem við reynum svo átakanlega mikið að verða. Oftast í átakanlega augljósu vonleysi.

Því minni Gallagripir sem við leyfum okkur að vera – því ómanneksjulegri verða kröfur okkar um fullkomnun og algert gallaleysi. Við verðum grimm og óvægin, sérstaklega í skjóli net- og samfélagsmiðla og gagnrýnum minnstu mistök.

Ég var þessi týpíska meðalmanneskja sem þráði það helst, í mínum svartklædda raunveruleika, að öðlast öfund og aðdáun annarra. Ég var óvægin, gagnrýnin og gerði ómanneskjulegar kröfur. Tók þátt í baktali og hneykslaðist á barnaskap og hálfvitahætti annara.

Svo gerðist eitthvað dásamlegt.  Í skjóli meðalmennskunar fór ég að læra að elska sjálfa mig. Bara líka þokkalega vel við þennan gallagrip, þessa annars ágætu meðal-Hrefnu. Kunna að meta það sem ég gat og ég gerði og hætta að brjóta mig niður fyrir það sem ég kunni ekki – ennþá.

Ég er nefnilega þokkalega ágætt eintak, svona þegar ég fór að kynnast mér betur. Þegar ég fór að skrapa lögin af persónunni sem ég hafði skapað. Það lag sem var hrætt við reiði og skapsveiflur annara, það lag sem var hrætt við álit og gagnrýni annara og það lag sem var hrætt við að Gallagripurinn Ég, verðskuldaði ekki að vera elskuð.

Ég lærði einlægni og æfði mig í þeirri list að vera ég sjálf. Æfði mig í að segja fólki frá því þegar mér sárnaði og þegar þau fóru yfir mörkin mín. Ég fór að kunna vel við Gallagripinn og finnast hann bara nokkuð skemmtilegur og áhugaverður félagsskapur. Ég er ennþá að æfa mig í því að standa með sjálfri mér, setja mörk og vera blíð og umburðarlynd við sjálfa mig.

Ég er verk í vinnslu.

Kraftaverkið mitt lá í því að  læra að samþykkja sjálfa mig, því þá fyrst fór ég að samþykkja aðra. Til að umbera galla annarra þarf maður nefnilega að fyrst að læra umbera sína eigin.

Í byrjun árs fara margir að huga að því að rækta líkama sinn – sennilega eftir frekar sukkaðan jólamánuð. Mig langar alveg hrikalega mikið til að hvetja þig í að rækta einlægni, heiðarleika og sjálfsvirðingu – sérstaklega í ljósi hömlulauss sukks á kommentakerfum netmiðla og á samfélagsmiðlunum. Höfum orð Ghandi að leiðarljósi og verðum sú breyting sem við viljum sjá í heiminum.

 

Með vinsemd og virðingu;

Venjulegasti Gallagripur í heimi.


Ótrúlega hamingjusöm (og útúrlyfjuð). 

Ég varð fertug á árinu sem er alveg dásamlegt sko, en einhvern vegin átti ég samt von á meiri þroska, visku og umburðarlyndi á þessum merku tímamótum. Það spilar kannski eitthvað inn í hvað mér finnst svo margt í íslensku þjóðfélagi einkennast af heimsku og vitleysu. Við hjökkum endalaust í sama farinu, gerum sömu mistökin á sama hátt, gerum þau aftur og aftur og virðumst aldrei geta lært af mistökumi fortíðar. Allt púðrið fer svo í að finna einhvern til að taka á sig allt klúðrið í stað þess að vinna að því að finna lausnir og nýjar leiðir.  

Allavega.

Eins og mér leiðist þessi vitleysa í þjóðfélaginu ótrúlega mikið, þá dáist ég endalaust að þeim sem þora að synda á móti straumnum og segja skoðanir sínar og sögur, þrátt fyrir að þær stingi mann stundum.

Sannleikurinn stingur nefnilega stundum...

Ísland er önnur hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt bæði Sameinuðu Þjóðunum og OECD. Vúhú fyrir okkur! En við erum líka sú þjóð, innan OECD, sem notar mest af geðlyfjum til að tækla daglegt líf. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé engin innan þessa OECD sem sjái neitt athugavert við þessar niðurstöður...? Kannski er ég bara einföld og vitlaus og skil ekki stjórnmál (sem er satt) en mér finnst samt þessi stærðfræði einfaldlega ekki ganga upp.

Við erum kannski bara svona ótrúlega hamingjusöm af því að við erum hreinlega útúrlyfjuð?

Það er miklu frekar dælt geðlyfjum í fólk sem á við tilfinningakrísur að stríða, heldur en að hjálpa þeim að vinna sig út úr þessum krísum. Það detta allir einhverntíma niður í geðinu. Allir. Annað er óhjákvæmilegt þegar maður fæðist sem manneskja.

En það er auðvitað ekkert kúl við það að vera þunglyndur eða með kvíða og hvað þá ef geðsjúkdómarnir eru eitthvað meiri en það. Allt sem er ekki hipp og kúl viljum við ekki ræða opinskátt. Við viljum ekki að fólk dæmi okkur, við viljum ekki missa virðingu og aðdáun annarra. Að vera samþykktur og forðast fordæmingu er jú það sem þetta allt snýst um. Við göngum oft ansi langt til þess að passa það að fólk hafi enga ástæðu til að dæma okkur. Við göngum það langt að við erum oft tilbúnari að deyja frekar en að missa virðingu og álit annarra.

Það eru allir með eitthvað sem enginn má vita af. Ó, þessi skelfilega skömm.

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn í Ástralíu þar sem menn reyndu að sanna þá kenningu að streita eða félagsleg einangrun leiddu til brjóstakrabbameins. Það sem kom í ljós var að konur sem höfðu upplifað mikla streitu, langvarandi streitu eða áfallastreitu, voru ekki líklegri til að þróa með sér krabbamein. Og konur sem höfðu engan félagslegan stuðning voru heldur ekki í neinni hættu. En þær sem höfðu upplifað mikla streitu og gátu ekki talað um það - voru í 9.5 sinnum meiri hættu á að fá krabbamein.

Það nákvæmlega sama á við um geðræna erfiðleika. Það detta allir niður í geðinu. Við lendum öll í einhverju. En þegar við getum ekki eða höfum engan til að tala við um það sem er að valda okkur vanlíðan, þá hrynjum við. Niður í þunglyndi, kvíða og sjálfsvígshugsanir.

Þögnin drepur!

Lyf hjálpa sumum en öðrum ekki. Þau hjálpa til við að deyfa geðið niður og lifa af en þær hjálpa okkur ekki að takast á við tilfinningarnar. Aðeins það að tala við einhvern sem maður treystir gerir það. 

Sálfræðingur, heimilislæknir, iðjuþjálfi, hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, foreldri, maki, vinur.... Einhver sem dæmir ekki. Einhver sem fær mann ekki sjá eftir að opna á það sem maður óttast mest. Bara það að losa sig undan skömminni hjálpar. Losa sig undan því að finnast maður vera meingallað eintak, þegar maður er einfaldlega mannlegur með kjánalegar tilfinningar.

Eins og allir hinir.

Það væri óskandi að það væri jafn auðvelt aðgengi að fagfólki eins og að lyfjum. Í jafn langan tíma. Að það sé líka niðurgreitt. En á meðan ráðamenn finna leiðir til þess að gera þennan möguleika að raunveruleika þurfum við að gera meira af svona átökum eins og #égerekkitabú, #útmeða og #heilabrot.

Við þurfum, á einhvern hátt, að losa okkur undan fortíðinni. Ekki með því að deyfa okkur gagnvart henni, heldur með því að ræða hana, skrifa hana, syngja hana, garga hana... hvað eina það sem losar okkur við skömmina.

Við þurfum að vera til staðar og hlusta og ekki dæma. Ekki hneykslast og ekki gagnrýna og ekki fordæma. Það eiga allir sína sögu, sumar eru bara óþægilegar en aðrar eru ljótar. Meira segja margar skelfilega ljótar.

Við viljum ekki trúa þeim. Við viljum ekki trúa því að mannskepnan geti verið svona vond. Við viljum heldur ekki heyra okkar nánustu tala um hversu illa þeim líður. Við viljum að þau rífi sig upp úr svona niðurrífsstarfsemi. Það er nefnilega engin skynsemi í því.

En þessar sögur þurfa allar að fá að heyrast.

(...og það er engin skynsemi í tilfinningum).

 

Takk fyrir þið sem þorið að segja ykkar sögu, hver sem hún er. Ég held að þið séuð að gera heiminn að betri stað.

 

Hvers virði eru ömurlegheit?

Við Íslendingar erum upp til hópa ágætis einstaklingar - tiltölulega flott fólk en pínu brennd af vonbrigðum lífsins.  En af og til kemur fyrir að við gerum eitthvað eins heimskulegt eins og að fara að deita, fara í samband eða stofna til sambúðar. Sumir geta gert þetta allt á skynsamlegan hátt, geta deitað á þeim forsendum að þeir séu að máta.

Máta hvort þetta sé einstaklingur sem kemur vel fram við þig og þér líður vel með. Máta hvaða hliðar hún eða hann kallar fram hjá þér? Getur þú algerlega verið þú sjálf/ur eða upplifir þú þig stöðugt tuðandi, nöldrandi og að “ræða málin”.  Nær þessi manneskja að höndla þig án þess að þurfa að breyta þér eða „betrumbæta“ þig...?

En gefum okkur það að við náum að deita jafn skynsamlega og að kaupa okkur föt. Finnum einhvern hrikalega dásamlegan og skemmtilegan félagsskap, höfum fullt að tala um, opnum okkur tilfinningalega og finnum þessa dásamlegu nánd og innileika sem þetta snýst jú allt um. Í heimi þar sem erfitt er að vera einn en auðvelt  að vera einmana, þá förum oft við í þann pakka að “verða eitt” þegar í samband er komið. Við fórnum því að verða einstaklingar með eigin langanir, þarfir, skoðanir og hugmyndir til þess að verða par.

Í þeirri viðleitni okkar til að halda sambandinu góðu, tökum við að okkur að passa hamingju, vellíðan og gleði makans (og barna og systkyna og foreldra og vina...) sem gerir það að verkum að við þorum ekki að rugga bátnum í öllu því veseni sem fylgir því að standa með sjálfum sér. Það kostar nefnilega oft átök, gremju og pirring. Svo við gerum málamiðlanir, við setjum drauma okkar og þarfir á bið og gerum það sem við þurfum að gera til að sambandið haldist á floti. Og makinn sé ekki of pirraður.

Þetta er það “heimskulega” við sambönd; við förum að fórna því sem við í grunninn erum til að mæta því sem er ætlast til að við séum.

Það er eitthvað sem gerist hjá einstaklingum sem fórna sér á þennan hátt. Einn snillingurinn sem ég þekki heldur því fram að það gerist eitthvað fyrir okkur í kringum fertugsaldurinn. Ég er farin að hallast að því sama. Eftir sjálfstæðisbaráttu tvígugsaldursins og lífsgæðakapphlaup þrítugsaldursins, þá vöknum við upp í kringum fertugsaldurinn í innantómum og yfirborðskenndum samböndum og áttum okkur á því að tilvera okkar skiptir afskaplega litlu máli í stóra samhenginu. Einhvern veginn fer það að skipta máli að skipta máli. Þú veist, að lífið hafi einhvern dýpri tilgang en að eiga bara flottari hluti en Jón og Gunna hinum megin við götuna. Og vera í betri vinnu með hærri tekjur.

En við bælum þessa kjánalegu þörf niður og höldum áfram á sömu braut. Af því að þeir sem reyna að fylgja eigin löngunum, draumum og þrám eru stundum sagðir vera sjálfselskir eiginhagsmunaseggir. Af því að við erum of hrædd við að missa það sem við höfum fyrir eitthvað sem við vitum ekki hvað verður. Af því að við erum hrædd við að gera eitthvað nýtt og róttækt. Af því að við erum föst í viðjum vanans. Og af því bara...

Sú hugsun læðist líklega að flestum í þessum sporum, að þeir eigi allt sem hugurinn gæti girnst, fjölskyldu og vini, þak yfir höfuðið og góða vinnu, yfir hverju ættu þeir að kvarta og hverju vilja þeir breyta? Margar spurningar en fátt um svör.  Við sem höfum verið í þessum sporum verðum snillingar í því að bæla þessa ólgu niður og fáum okkur hund eða pöntum ferð til Spánar fyrir alla fjölskylduna til að þagga aðeins niður í þessari leiðindarröddu.  Eða dettum bara í´ða.

Því meira sem maður setur þarfir, drauma og langanir annarra umfram sínar eigin, því meiri verður ólgan. Því meira sem maður eltir væntingar annarra og og gerir það sem öðrum finnst, því meiri verða ömurlegheitin. Svo maður bara einangrar sig og segir engum frá þessari kjánalegu líðan. Hver gæti svo sem  skilið þetta? Það eru einhvern veginn allir með sitt á hreinu, vita hvað þeir vilja og eru hamingjusamir og þakklátir með sig og sitt. Er það ekki annars?  Hver gæti mögulega skilið það að hamingjan felst kannski ekki í því að eiga sem mest eða gera sem mest eða vera sem mest, þegar allir virðast vera að keppast við að eiga sem mest, gera sem mest eða vera sem mest?

Neikvæðar hugsanir herja á mann, samviskubit og sektarkennd verða bestu vinir manns, tilgangsleysið vex og maður sér einhvern veginn enga raunhæfa leið út. Stundum er maður heppinn og eitthvað stórkostlegt gerist sem kastar manni út úr “þæginda”kassanum þannig að maður þarf að fara að hugsa hlutina upp á nýtt. Sjá lífið í öðru ljósi og taka gamla drauma úr geymslunni og leita að nýjum. Eitthvað eins og skilnaður, fjármálaerfiðleikar eða uppsögn.

Check, check, check; been there, done that.

Eina sem ég hefði vilja breyta er að ég vildi að ég hefði lært að standa með sjálfri mér fyrr og kunnað að elta draumana mína. Það er nefnilega eitthvað svo stórkostlegt sem fylgir því að láta vaða, gera mistök og læra af þeim, halda áfram og landa nokkrum sigrum. Að láta vaða, gera mistök og gera betur í framtíðinni er mantra sem maður þarf að tileinka sér því alltof oft gugnum við á að fylgja hjartanu þegar hausinn er sannfærður um að við munum klúðra. Og að fólk verði reitt út í okkur eða að við munum særa aðra. Svo við höldum okkur inn í þægindunum, ræktum ömurlegheitin upp í tæra örvæntingu sem endar svo yfirleitt með ósköpum. 

Ömurlegheitin virðast þannig vera okkur afskaplega mikils virði, því ekki nægir vanlíðan og vonleysi til að við gerum eitthvað í málunum. 

Kannski er það lærdómur fertugs- og fimmtugsaldursins. Allavega er minn lærdómur fólginn í því að vita að ég mun aldrei ná að uppfylla draumana mína en svo sannarlega ætla ég að gera allt mitt til að nálgast þá. Vandamálið er að í hvert sinn sem ég nálgast takmarkið breytast áherslur og nýr og stærri draumur vaknar. Þetta er verkefni sem klárast aldrei.

Það er nefnilega svo satt sem sagt er; sönn hamingja er falin í ferðalaginu, ekki áfangastaðnum.

Elsku þú. Hlustaðu bara á hjartað - það hefur svo stórfenglegt líf að gefa þegar þú þorir...


Lífsgæðaefling í 10 einföldum skrefum.

  1. Þú ert nóg og ert akkúrat eins og þú átt að vera í dag. Aðstæður eru eins og þær eru en þú mátt sko alveg að stefna að því að hafa það betra. En það breytist bara ekki mikið hjá þér þegar þú hjakkar í þeirri þráhyggju að hlutirnir ættu að vera öðruvísi, að þetta hefði ekki átt að fara svona. 
  1. Við erum það sem við erum núna af því að við gerðum það sem við gerðum þá. Vitleysa gærdagsins getur kennt okkur svo ótrúlega margt um hvernig maður getur gert hlutina öðruvísi héðan í frá og hvað hefur ekki verið að virka hingað til. Hafðu í huga að fortíðin hefur gert þig að þeim stórmerkilega einstaklingi sem þú ert í dag (Og hugsaðu líka um það hvernig þú mögulega eigir að læra eitthvað nýtt ef þú gerir ekkert til að læra af?)
     
  2. Við erum alltaf að gera eins vel og við getum, með þá vitneskju sem við höfum í dag. Þegar við vitum betur, gerum við betur.
     
  3. Gærdagurinn er liðinn og við fáum engu um hann breytt. Alveg sama hversu mikið þú reynir. Ekki hægt! (En þú veist, ef þú skyldir finna aðferð til þess, sendu mér skilaboð. Sem allra fyrst, takk).
     
  4. Ef þú hefðir vitað betur, hefðir þú gert betur. Slepptu tökum á því hvernig þú hefðir viljað gera betur. Þú gerðir það ekki af því að þú kunnir það ekki, tileinkaðu þér frekar mottóið hennar Elsu í Frozen. LET. IT. GO!!!
     
  5. Einstein sagði að geðveiki sé það að gera sama hlutinn aftur og aftur en vænta samt annarar niðurstöðu. Ekki leggja alla þína orku í að rífast við raunveruleikann (þetta hefði átt að vera öðruvísi) og réttlæta og verja allt sem þú hefur gert hingað til. Láttu fortíðina verða þinn besti kennari. Hlustaðu á það sem aðrir hafa fram að færa án þess að verja þig eða réttlæta. Þú finnur ótrúlegustu gullmolana í gagnrýni.
     
  6. Hver einn og einasti dagur er nýtt tækifæri. Tækifæri til að læra af mistökum gærdagsins, hugsa hlutina upp á ýtt og gera öðruvísi héðan í frá.
     
  7. Lífið snýst um að njóta ferðalagsins en ekki bíða eftir að komast á áfangastað. Þessi gamla tugga er svooosönn. Ekki óttast möguleg mistök og vitleysur. Ekki gera ekki neitt! Taktu sénsinn og gerðu frekar mistök heldur en að gera ekkert. Óttinn við mistök festir þig á sama stað, í sömu sporum og aðstæðum. Láttu vaða með því hugarfari að þú lærir allavega eitthvað nýtt á leiðinni. Í versta falli lærir þú hvað þú átt ekki að gera og hvað þú vilt ekki.
     
  8. Njóttu dagsins í dag, hann er og verður alltaf það eina sem þú átt og hefur. Í dag hefur þú möguleikann á að breyta og gera betur. Þú getur ekki gert það í gær. Slepptu tökum á því sem var og finndu leiðir og lausnirhéðan í frá. Ekki hengja þig í því sem þegar er gert og vangaveltum um af hverju. Finndu leiðir til að gera beturnæst.
     
  9. Með gleðina og lausnarmiðaða hugsun að leiðarljósi (það er alltaf lausn, það þarf bara að finna hana) eru þér allir vegir færir. Mundu bara að njóta ferðalagsins

Bessevisserar landsins, athugið!

Þegar ég bjó á Akureyri og fór með ungann minn fyrsta daginn á leikskóla, ákvað ég að reyna að fara í kúlið og verða þessi upplýsta, meðvitaða móðir sem mér hefur svo sjaldan tekist að vera og spurði um þær stefnur sem leikskólinn aðhylltist. Með dass af umburðarlyndi og þolinmæði svaraði deildarstjórinn mér því að þau væru eiginlega hrifnust af skynsemisstefnunni - að taka það besta, skynsamasta og hagnýtasta héðan og þaðan og sú stefna væri stöðugt í mótun þegar eitthvað sniðugra og skynsamara kæmi á borð til þeirra.

Þvílíkir gargandi snillingar sem þessir Akureyringar eru!

Eftir þetta hef ég myndað mér margar slíkar skynsemistefnur, í trúarmálum, varðandi uppeldisaðferðir og lífsskoðanir mínar um sálarlíf, hausarusl og tilfinningadrasl. Ég hef sterkar skoðanir á ýmsu, eins og á yfirstandandi verkfalli heilbrigðisstarfsfólks og lögleiðingu fíkniefna en hins vegar skortir mig stundum löngun til að hafa skoðun á minna spennandi hlutum, eins og hvort og hvenær það sé hagstæðast sé að taka verðtryggð lán, hvort við eigum að vera í ESB eða hvort yfirstandi árstíð falli frekar undir það að vera haust eða vetur.

Ég á fullt af allskonar skoðunum, bæði skynsamlegum og gáfulegum en líka kjánalegum og stundum barnalegum. Allar byggjast þær samt á einhverju sem mér var kennt í uppeldinu, á lífsreynslu minni eða annarra - og líka þeirri ólukkans leti minni að apa frekar upp óupplýstar skoðanir annarra heldur en að hafa fyrir því að mynda mér mínar eigin.

En jafnvel þó ég vandi mig ofsalega vel við að mynda mér skoðun og reyni að byggja hana á vel upplýstum hugmyndum snillinga, vísindalegum rannsóknum og reynslu þúsunda einstaklinga, þá mun ég sjálfsagt seint ná að finna  “hina einu réttu skoðun”. Þegar skoðun er orðin óvéfengjaleg, eitthvað sem engin efast um og allir eru sammála um, þá er hún væntanlega hætt að vera skoðun og er orðin að staðreynd (....sem verður líklega aldrei miðað við það að það er enn til fólk sem heldur því fram að jörðin sé flöt og að þyngdarafl sé hugarburður).

Skoðun er eitt það dýrmætasta og persónulegasta sem við eigum. Skoðun er allt það sem byrjar á “mér finnst...”, “ég trúi....” og “ég held....”. Það eru einmitt skoðanir sem gera okkur einstök og ólík hvert öðru. Það sem gerir okkur einmitt skynsöm, sniðug eða kjánaleg. Skoðanir okkar eru þar af leiðandi afskaplega viðkvæmar fyrir áliti annarra því með því að tjá skoðun erum við að gefa öðrum tækifæri á að gagnrýna okkur, hafna eða jafnvel útiloka með öllu ef þær samræmast ekki skoðunum annarra.

Ég hef oft “lent” í því að þurfa að gefa afslátt af skoðunum mínum til að halda friðinn (þegar ég nenni ekki veseni). Það er hins vegar mun verra að viðurkenna að ég á það til í að fara í hinar öfgarnar - að leggja allt mitt í að sannfæra aðra um hversu miklu réttari mín skoðun er - og þá um leið hversu lakari skoðanir annarra eru, að sjálfsöðgu með það eina markmið að upphefja sjálfa mig á kostnað annarra. Í jafnvægi og á mínum góða stað átta ég mig á hversu yfirgengilegur hroki og vanvirðing felst í því að telja mig vita meira um hvaða skoðun hentar fólki betur heldur en það sjálft! Þetta gæti jafnvel flokkast undir  “skoðana-nauðgun”.

Skoðanaskipti eru hins vegar af hinu góða. Bestu samskiptin sem ég hef átt, er þar sem mér finnst ég nógu örugg til þess að setja fram skoðun eða pælingu án þess að þurfa að réttlæta mig eða verja. Mér finnst ég stundum ólýsanlega huguð að geta sett fram skoðun ef hún er ekki í takt við það sem öðrum finnst. Og stundum gæti ég hreinlega klappað af gleði þegar ég hitti fólk sem er opið fyrir nýjum hugmyndum og skoðunum og segir eitthvað í áttina við; “...Hmmm. Ég hef aldrei hugsað þetta svona, ég ætla að spá aðeins í þessu”. Þá finnst mér eins og ég hafi unnið í lottói. Þetta erþað sjaldgæfur eiginleiki.

Það er tvennt sem mig langar að gefa þér með þessum pistli. Hagnýtar upplýsingar sem tók mig svo óralangan tíma að læra:

  1. Samskipti snúast að mestu um að skiptast á skoðunum, hugmyndum og/eða upplýsingum. Maður þarf bara að passa sig á því að þó þú hafir skynsama skoðun sem hentar þér og þínu lífi, er hún ekki endilega sú besta fyrir alla aðra og kannski bara alls ekki sú besta yfirhöfuð. Það sem aðskilur skoðanaskipti og skoðana-naugðun er viljinn til að leyfa fólki að ákveða sjálft hvað það gerir við upplýsingarnar sem gefnar voru.
  2. Þegar ég veit meira um hluti, aðstæður eða fólk þá stundum kemur það fyrir að ég þarf að skipta um skoðun. Þó það hefði tekið mig langan tíma að læra þettta, tók það mig samt enn lengri tíma að finna hugrekkið og leyfa mér þann munað. Það getur verið erfitt fyrir mann að hafa blásið skoðun út eins og risastórri sautjánda júní blöðru og ætla svo að skipta um skoðun. En það má! Og þetta er það sem hugrakka fólkið gerir; það gerir betur þegar það veit betur.

Mín ósk til þín er að þú finnir þitt hugrekki til að hafa þína eigin skoðun og tjá hana þó hún sé ekki í takt við það sem öðrum finnst. Að þú vitir að skoðun þín sé engu minna virði en skoðanir annarra, hvaðan svo sem úr þjóðfélagsstiganum fólkið með hina skoðunina er. Að þú takir því ekki persónulega þegar fólk hefur aðra skoðun en þú og að þú hafir hugrekki til að hlusta eftir nýjum hugmyndum og skoðunum og leyfir þér endrum og eins að skipta um skoðun.

Mín ósk út í daginn er að fá umburðarlyndi, þolinmæði og velvilja þrátt fyrir og kannski sérstaklega þegar skoðanir okkar eru ekki alveg samferða.

Með von um dásamlegan dag.


Hamingja fæst gefins gegn því að vera sótt...

Það er fáránlega auðvelt að nota tilfinningar til að stjórnast í fólki til að ná sínu fram. Það eru margar leiðar færar í þessum efnum en í grunninn er uppskriftin frekar einföld. Byrjaðu á því að ná í alla uppsöfnuðu gremjuna þína, hækkaðu róminn allverulega og notaðu svo nokkuð ógnandi líkamsstöðu.

Týndu svo allt til sem þessi einstaklingur hefur gert á þinn hlut... já, eða týndu bara til öll mistök - því meira sem þú grefur upp, því betra. Og ef þú hefur ekki ennþá náð þínu fram, þá klikkar ekki að rjúka út og mæla ekki orð frá munni þar til að þú hefur fengið þínu framgengt.

Er það furða þó að fólk  þoli ekki tilfinningar?

Við fæðumst með svo sterka þörf fyrir góð samskipti, að við erum tilbúin að sættast á fáránlegustu málamiðlanir til að komast undan bölvaðri dramatíkinni sem fylgir særðum tilfinningum og beygluðu stolti. Við gefum eftir og látum undan til að halda hlutunum í góðu. Þörfin fyrir að hafa samskiptin góð og átakalaus ásamt þeirri viðleitni að forðast óþægilegar tilfinningar, gerir okkur afar heppileg fórnarlömb fýlupúkaárása - hvort sem það er af hálfu maka, fyrrverandi maka, vina, systkyna, barna eða jafnvel einhverjum Jónum og Gunnum út í bæ.

Þær eru leiðinlegar setningarnar sem byrja á „þú þarft að...“,þú átt að...“ og „núna skalt þú...“ og það er erfitt að standa með sjálfum þegar manni finnst maður vera særa einhvern með því. Af hverju við teljum okkur vita betur hvernig aðrir ættu að haga lífi sínu, er ein af furðulegustu ráðgátum lífsins, sérstaklega þegar haft er í huga að flestir eiga í töluverðu basli með sitt eigið. En kannski er einfaldara að sökkva sér í annarra manna vandamál heldur en að gera eitthvað í sínum. Svo við skiptum okkur af því hvernig systkyni okkar ættu að ala upp börnin sín; hvernig vinirnir þyrftu að taka sig á í matarræðinu eða hvernig fyrrverandi makar verði að hafa hlutina heima hjá sér.

Og við leyfum fólki að skipta sér af og stjórnast í okkur á þennan hátt á meðan við erum hrædd við að segja nei, á meðan við erum hrædd við að segja það sem okkur finnst – á meðan við erum svona hrottalega hrædd við skollans samviskubitið.   

Á meðan við beintengjum hamingjuna á þennan hátt við álit annarra og gerum allt til að gulltryggja að allir séu sáttir og engin súr, þá getur maður allt eins kysst þessa langþráðu lífshamingju bless. Það verður aldrei nóg. Þú gerir aldrei nóg. Þúsund manns hafa þúsund skoðanir á öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur og þegar þér loksins hefur tekist að gera einum til geðs, kemur einhver annar sem segir hvernig þú hefðir frekar  átt að gera. Fólk kemur alltaf til með að hafa skoðun á því sem maður tekur sér fyrir hendur.

Og trúðu mér; við verðum aldrei nógu rík, dugleg eða flott til að mæta kröfum annarra. Það hafa flestir skoðun á því hvernig fólk ætti frekar að gera hlutina og það er allt í lagi. Enda ert þú að hugsa út frá þinni reynslu og þekkingu. Hafðu samt í huga að það er akkúrat það sem hinir eru að gera líka – gera sitt besta út frá sinni reynslu og þekkingu sem er alveg ótrúlega ólík þinni.

Það er vont samviskubitið og það er vont að hafa einhvern reiðan eða fúlan út í sig svo maður leitar allra leiða til að gera allt gott á ný. Til að hinn verði ánægður og glaður á ný.

Og þar liggur allt bévítans hausaruslið.

Af einhverjum fáránlegum ástæðum teljum við okkur þurfa bjarga gleði og hamingju annarra. Og höldum um leið að það sé aðeins þegar fólk hættir að haga sér eins og fífl og við hætt að þurfa að hafa áhyggjur af þeim, að þá loksins getum við orðið hamingjusöm. Að það sé aðeins þegar við fáum þá framkomu sem við teljum okkur eiga skilið, að þágetum við orðið glöð. Rétt eins og að aðeins þegar við verðum nógu rík, nógu grönn og förum að njóta nægilegrar virðingar, að þá loksins verðum við ánægð. 

Svona hugarfar slátrar beinlínis öllum möguleikum á hamingju og lífsgleði því sennilega þurfum við að bíða eftir að það frjósi í Helvíti áður en fólk hættir að haga sér eins og fífl.  Það tók mig langan tíma að átta mig á því að gleði og hamingja er val. Að við getum valið okkar eigin framkomu og hvernig viðbrögð okkar við framkomu annarra eru. Systir mín segir stundum þegar ég verð pirruð, að nú sé ég farin að beygla gleðina hennar aðeins of mikið og það henti henni bara ekki. Hvort ég vilji ekki koma aftur inn (og bendir á úidyrahurðina) í betra skapi.  

Með því að leyfa ekki öðrum skemma gleðina okkar, erum við að taka ábyrgð á okkar eigin tilfinningum. Með því að leyfa ekki öðrum stjórna því hvernig okkur líður.

Það er ákveðið þroskaferli að losa sig undan áliti annara. Þetta hefur oft verið strembið ferðalag en áfram held ég. Af því að á leið minni hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðu:

  1. Því minni áhyggjur sem ég hef af því sem öðrum finnst, því ánægðari verð ég.
  2. Því færri skoðanir sem ég hef á lífi annarra, því glaðari er ég.
  3. Því minna sem mér finnst ég þurfa að sanna mig fyrir öðrum, því frjálsari er ég.
  4. Því meira sem ég fylgi minni eigin sannfæringu, því hamingjusamari er ég.
  5. Því glaðari, ánægðari, frjálsari og hamingjusamari sem ég er, því oftar brosi ég.
  6. Því meira sem ég brosi, þeim mun skemmtilegra er lífið.
  7. Því skemmtilegra sem mér finnst lífið vera, því meiri möguleika hef ég á því að vera í stanslausri gleði og botnlausri hamingju.

Hamingja er val og fæst ekki í gegnum hluti, fólk eða aðstæður. Hún felst í því að vera sáttur við sig og sitt, hér og nú og með það sem maður er, á og hefur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband