22.1.2015 | 10:11
Dagurinn sem ég bjargaði heiminum.
Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á því að það allra besta, í öllum heiminum, er að vera í gleði. Og Guð hvað ég man vel eftir þeirri dásamlegu tilfinningu að vera glöð yfir því einu að vera til. Hoppandi yfir blómabeðið á Vesturveginum, aftur og aftur og fram og til baka, af þeirri ástæðu einni að það var bara svo hrikalega gaman.
Hvort sem það er vegna erfða eða uppeldisaðstæðna, þá hef ég alltaf þurft að hafa fólkið í kringum mig í gleði svo ég geti sjálf geti leyft mér mína gleði. Það skyggir á gleðina ef einhver er reiður, pirraður eða leiður í kringum mig. Ég tala nú ekki um ef pirringurinn og ergelsið snýr að mér. Þá fæ ég samviskubit sem beyglar alltaf gleðina.
Sem barn ég ekki skilið hversu skelfilega gleðisnauð fullorðinsárin geta verið. Hversu mikið það tætir gleðina að bera ábyrgð, vera raunsær og að standa sig í lífinu. Ég hélt nefnilega í minni barnslegu einfeldni að þegar maður yrði fullorðinn og réði yfir sér sjálfur, að þá myndi maður bara alltaf velja það sem gefa mesta gleði - og að sleppa því að gera það sem er ekki jafn skemmtilegt. Bara af því að það er svo gaman að vera í gleði.
En þetta er ekki alveg svona einfalt... eða hvað?
Það getur verið dáldið flókið mál að langa það mest að öllu að vera í gleði og hafa gaman en geta það ekki út af því að einhver annar er í vondu skapi. En þegar maður er úrræðagóður finnur maður margar góðar og sniðugar (en stundum algerlega fáránlegar) aðferðir til að gleðja þá sem halda góða skapinu manns í gíslingu. Ég hef látið ýmislegt yfir mig ganga og hef meira segja oft brotið á eigin sannfæringu fyrir þessa ótrúlega sterku þörf fyrir að hafa fólkið mitt í gleði. Því þá loksins get ég einbeitt mér að minni gleði. Sektarkennd og gleði eiga nefnilega enga samleið.
Þegar það svo nægir ekki að breyta sjálfri mér til að bjarga tilfinningum þessa fólks, þá reyni ég að breyta þeim sjálfum eða aðstæðum þeirra. Ég kem með ótrúlega sniðugar lausnir og hugmyndir (að eigin mati) til að þessir einstaklingar finni nú loksins gleðina sína . Ó hve ljúfir þeir dagar eru, þegar fólk gerir bara eins og ég segi! En ef þessi björgunarleiðangur dugir heldur ekki til þá verð ég reið og sár og stundum verulega pirruð. Það er stór fórnarkostnaður á eigin lífsgleði og hamingju að taka ábyrgð á tilfinningum annarra.
Ég veit, ég veit ég bjarga kannski ekki heiminum upp á mitt einsdæmi (missti mig pínu í dramanu í fyrirsögninni) en ég get klárlega gert heiminn að aðeins betri stað til að búa á. Og það gerði ég klárlega daginn sem ég ákvað að það væri ekki mitt að bera ábyrgð á tilfinningum annarra. Að annað fólk velur sér sjálft sína líðan og ef það vill vera í reiði, pirringi eða gremju að þá megi þau það bara! Að mín ábyrgð snúist eingöngu um að hlú að minni eigin gleði og að sinna henni.
Þegar við erum að streða og reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að standa undir þessari helvítis ábyrgð sem fylgir fullorðinsárunum, þá gleymum svo oft gleðinni. Við höfum ekki tíma fyrir hana, en þurfum samt svo tilfinnanlega mikið á henni að halda. Lífið er nefnilega ansi tómt án gleði. Og svo kemur dagurinn sem maður fær nóg af streðinu og segir bara Fokk-it! Lífið hlýtur að eiga bjóða upp á eitthvað meira en bara þetta. Og við finnum eitthvað bara eitthvað - sem gefur einhvað smá kikk í annars gleðisnautt líf. Eitthvað sem kannski særir aðra en við réttlætum það með því að halda því fram að við eigum líka rétt á því að vera glöð.
Við eigum öll rétt á því að vera glöð. Og ekki bara á sérstökum dögum og af sérstökum ástæðum, heldur mjög oft og bara af því bara!
Elsku þú. Viltu hafa í huga það sem Ghandi sagði eitt sinn, að eina leiðin til að breyta heiminum væri með því að breyta sjálfum sér. Ímyndaðu heim þar sem allir sinna sínu. Sjá um sína eigin gleði með gleði og í gleði. Með vúhú-um og vííí-um og ómægod-dramaöskrum fyrir allan peninginn. Hversu dásamlega skemmtilegur heimur væri það að búa í? En ekki samt misskilja mig - ég er ekki að tala um að gera hluti sem særa eða meiða eða láta þig fá samviskubit - það veitir engum sanna gleði. Ég er að meina að finna hvað það er sem þér finnst gaman að gera, það sem kallar fram bestu hliðarnar þínar og lætur þig finnast þú vera skemmtilegasti og áhugaverðasti einstaklingurinn sem þú þekkir það sem lætur þig líða alveg ótrúlega vel með sjálfan þig - og gera það svo oft.
Elsku þú. Fyrir börnin þín og fjölskylduna, fyrir vini þína og alla hina. Ertu þá til í að setja gleði þína í forgang. Ef þú hugar að þinni gleði, þá geta hinir einbeitt sér að sinni gleði. Gleði (alveg eins og vont skap) er ótrúlega smitandi og hún kallar fram bestu hliðarnar okkar. Þó ég sé ekki hrifin af því að líkja fólki við skít, þá get ég samt lofað þér því að þú yrðir sennilega eins og þessi margfræga mykjuskán sem mýið sópast að. Það er sjaldgæfur eiginleiki að dvelja í gleði og við sækjumst óhjákvæmilega í þá sem okkur líður vel í kringum.
Elsku þú. Fyrir sjálfan þig ertu þá til í að taktu áhættu og gera eitthvað ótrúlega skemmtilegt. Gera eitthvað klikkað, eitthvað sem fær þig til að finnast lífið vera þess virði að lifa því. Ég veit nefnilega af eigin reynslu hversu lífshættulegt það er að svelta lífið allri gleði. Gerðu það sem gefur þér gleði, gerðu það oft og gerðu það þar til að þér dettur ekki í hug að gera neitt annað.
Því þá fyrst veistu hvað það er að lifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2015 | 23:46
Að strippa á sálinni
Þar sem ég er pínu feimin og óframfærin og finn nokkuð reglulega fyrir fólksfælni, þá á ég nokkrar grímur til að setja upp þegar ég þarf að fara í búð (og er engan vegin stemmd fyrir það), þegar ég er að hitta fólk í fyrsta skipti og veit ekkert hvernig ég á að vera eða (Guð forði mér frá þeim aðstæðum) ef ég þarf að biðja um aðstoð. Þessar grímur eru mér algerlega lífsnauðsynlegar því annars myndast hætta á því að ég bókstaflega andist úr feimni og vandræðagangi. Grímurnar mínar eru margskonar; fyndnar, skilningrsríkar eða jafnvel stundum pínu hrokafullar. Svo á ég líka afar kurteisa grímu sem ég nota þegar ég veit ekki hverja af hinum ég á að setja upp. Þá er ég pínu stíf, gef ekkert sérstaklega mikið af mér og passa mig umfram allt að segja alls ekki neitt óþægilegt eða óviðeigandi. Best er þó þegar ég næ að snúa umræðuefninu upp á viðmælanda minn því þá er mér óhætt. Í bili allavega.
Svona grímusamskipti eru mjög yfirborðskennd, þú veist, bara gríman mín að eiga samskipti við grímuna þína. Þetta eru eru örugg, þægileg og einföld samskipti. Ekkert persónulegt sem fer okkur á milli. En yfirleitt er það þannig samt að ef okkur líkar við mannseskjuna og við treystum henni, förum við þá kannski að gefa aðeins meira af okkur. Þú veist, að segja frá einhverri persónulegu og verði maður ekki skotinn á staðnum með kaldhæðni eða hneysklun, þá fer maður hugsanlega að þora að opna á sífellt viðkvæmari hluti jafnvel að segja frá því sem manni hefur alltaf langað að gera og af hverju maður þorir ekki. En það er dáldið mjög persónulegt, sko.
Ástæðan fyrir feimninni minni og því að ég set upp þessar grímur er að ég er oft drulluhrædd við annað fólk. Eða sko áliti þeirra á mér. Ég er svo hrædd um að ef ég segi eða geri eitthvað sem annað fólk er ósammála eða jafnvel bara ósátt við, að þá vilji það ekki lengur eiga samskipti við mig. Ég bý nefnilega yfir þeirri kjánalega barnalegu löngun til þess að öllum líki vel við mig. Mér finnst það nefnilega svo andskoti góð tilfinning. Og á meðan ég er svona hrædd við það að öðrum mislíki við mig, þá á ég mjög erfitt að segja það sem mér raunverulega finnst og það sem mig langar og ég er líka hrædd um að ef ég segi einhverjum frá öllu því sem ég óttast - að það verði notað það gegn mér. Kannski sagt að ég sé, þú veist, barnalega kjánaleg.
Það hræðir mig ofsafengið að opna hjartað á þennan hátt og opna á almenna gagnrýni. Mér finnst það ekki bara vond tilfinning, heldur finnst mér ég vera algerlega varnarlaus; með sálina mína nakta. Ég er nefnilega stundum svo hrædd um að fólk sem mig langar til að umgangast, vilji ekki frekari samskipti við mig ef það þekkti mig í alvörunni. Ef það vissi um allt hausaruslið mitt og öll litlu ljótu leyndarmálin mín. Allt þetta sem ég skammast mín fyrir.
En ég veit líka að ef ég leyfi ekki fólki að kynnast mér eins og ég er, þá mun hún halda áfram að fylgja mér þessi gargandi þörf mín fyrir nánd, innileika og einlægni. Ég er búin að vera á þeim stað alltof lengi og það eina sem það hefur fært mér er einmannaleiki og enn meiri ótti.
Fyrir nokkru tók ég því þá ákvörðun um að vera eins mikið ég sjálf og ég þori. Nei, ég fer í raun og veru oft langt framyfir það sem ég þori og er þessa dagana mjög oft með æ-fokk-it-hvað-í-helvítinu-var-ég-að-gera tilfinningu. En alltaf, sko ég meina alltaf, hefur það samt verið helmingi betri tilfinning en þessi æpandi tómleiki sem fylgdi mér áður.
Þegar ég er í góðu jafnvægi þá er ég stanslaust að leita að leiðum til að gefa ást og allt sem felst í því orði. Falleg orð, gjafir, viðurkenningu, aðdáun, knús eða hvatningu. Með hjartað bókstaflega barmafullt af gleði, hamingju og þakklæti, veit ég ekkert betra en að dreifa og deila þessari gleði minni.
Þegar ég hins vegar dett úr mínum málum og kem mér fyrir í hausnum á öðru fólki, þá fer ég undantekningarlaust í óttann minn, finn fyrir kvíðatilfinningu og er stöðugt að leita eftir staðfestingu á því að ég sé elskuð og að fólki líki við mig. Þá hef ég líka átt það til í örvæntingu minni að yfirgefa sjálfa mig til að ganga úr skugga um að ég fái alla þá ást, umhyggju og væntumþykju sem mig svo sárlega vantar og reynist mér hrikalega erfitt að biðja um.
Með þetta í huga, reyni ég að mæta fólki á sama hátt. Ef ég verð fyrir dónaskap eða öðrum leiðindum, þá er ég yfirleitt nokkuð fljót að átta mig á því að það hefur ekkert með mig að gera. Að þeim vantar einfaldlega knús, falleg og uppörvandi orð eða staðfestinguna á því að þau séu líka nóg. Þá er auðvelt að gefa fólki það sem það á erfitt með að koma í orð; ást og væntumþykju.
Þegar ég tek sénsinn, tek niður grímuna og er ég sjálf, þá veit ég að annað hvort mætir fólk mér og gerir það sama eða þá að það velur að vera ekki í samskiptum við svona kjánaprik sem lætur allt flakka. Sem spáir og spögulerar í fáránlegustu hlutum og býr enn yfir þeirri barnalegu þörf að langa til þess að öllum líki vel við sig. Ég geri mér grein fyrir því að þegar ég vel að sýna mitt rétta andlit og geri og segi hluti sem skipta mig máli, þá mun líklega einhver, einhverntíma hafna mér og ekki vilja vera í frekari samskiptum við mig. Það sem ég hef hins vegar lært á undanförnum mánuðum er að það er allt í lagi. Mér finnst hvort eð er svo miklu betra að vera í samskiptum við fólk sem finnst ég dásamleg akkúrat eins og ég er.
Hoppandi hlýjar nýjárskveðjur til þín, með von fullt af dásamlegum æ-fokk-it-mómentum á komandi ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)