Flottasta skvísan á Facebook

Ein erfiðasta lífsreynslan sem ég hef nokkurn tíma lent í er að vera hafnað. Fyrir suma er það höfnun að vera sagt upp í starfi eða vera ekki boðið með þegar vinahópurinn gerir eitthvað saman. Fyrir mig var það að vera skilað. Ég fékk þá tilfinningu að það sem ég var eða hafði yfir að búa, væri ekki nóg. Þetta er skelfilega tætandi, meiðandi og eyðileggjandi tilfinning sem er samt fáránlega auðvelt að ættleiða. Við erum nefnilega mjög dugleg  að bera okkur saman við aðra og það sem þeir eiga, hafa, geta og gera.

Við búum til í huganum hinn „fullkomna einstakling“ sem kann allt og getur og svo miðum við okkur við hann. Það kemur auðvitað ferlega á óvart að það sé okkur í óhag. Við erum aldrei nóg ef við ætlum að bera okkar eiginleika saman við flottustu eiginleika allra þeirra sem við þekkjum.  Og bara með því að fara á facebook eða á lífsstílssíður netmiðlanna erum við stöðugt að sjá fréttir af fólki sem skarar fram úr á einhverju sviði. Við sjáum töff týpur sem eiga og eru að gera flotta hluti og hafa hæfileika á sviðum þar  sem við erum... tja, ekkert svo sérstök.

Ég sé einstaklinga sem eiga ótrúlega falleg heimili og hafa nenning fyrir allan peningin til þess að baka og elda góðan (allavega mjög girnilegan) mat. Ég sé fólk sem finnur sér tíma til að leika sér með vinum eða fjölskyldunni og eru duglegir að ferðast innanlands sem utan. Fólk sem á maka eða börn sem eru svo hrikalega dásamleg að það hálfa væri eiginlega nóg (fyrir okkur hin, sko). Ég sé fólk sem er endalaust duglegt í ræktinni og lítur alveg svakalega vel út. Svo á ég líka vini sem eru sjúklega flottir listamenn, hvort sem það er með því að mála, syngja eða setja saman setningar á hreint snilldarlegan hátt.  Og ég sé einstaklinga sem eru í hrikalega gefandi og skemmtilegri vinnu eða eru að stunda hættulega heillandi áhugamál.

En það sem ég sé hins vegar ekki, er fólk sem er þetta allt í senn. Við sjáum bara brotabrot af lífi fólks. Við sjáum það sem fólk setur fram til sýnis – sem eru yfirleitt allra flottustu eiginleikar hvers einstaklings. En við eigum auðvitað öll okkar ekki-svo-frábæru-eiginleika. Og hjúkket með það, því hver þarf á „fullkomnum“ vinum að halda? Það er í félagsskap þeirra sem þora að sýna bæði alla sína dásamlegu og líka „ekki-svo-frábæru“ eiginleika, að við finnum að við erum nóg. Og jafnvel bara nokkuð skemmtileg, fyndin og dásamleg.

Það getur hins vegar verið erfitt að koma úr skápnum með það að maður sé góður í einhverju. Jafnvel kannski bara mjög góður. Því hvað er það annað en mont, hroki eða mislukkuð tilraun til að vera flottastur á facebook? Við erum nefnilega oft ekki alveg tilbúin að samgleðjast velgengni og árangri annarra. Sem verður til þess að fólk heldur sig frekar inni í skápunum sínum og þægindakössum, frekar en að leyfa okkur hinum að njóta góðs af þeim einstökum eiginleikum og hæfileikum sem það býr yfir.

Ég var ekki bara kvíðin, heldur nánast lömuð af skelfingu yfir því að fara birta það sem ég skrifa. Eins og það sé einhver að fara nenna að lesa það sem ég hef að skrifa? En Guði sé lof fyrir allt dásamlega fólkið mitt, því mér var sparkað allhressilega úr þægindakassanum með þeim orðum að mesta eigingirnin í öllum heiminum væri sú að leyfa ekki öðrum að njóta þeirra hæfileika sem í manni búa.

Pældu í því hve sorglega fátækur heimurinn væri ef fólk héldi hæfileikum sínum útaf fyrir sig og deildi þeim ekki með öðrum. Og pældu líka í því hversu mörgum hæfileikum hefur verið sóað hjá öllum þeim sem þorðu ekki. Kannski vegna þess að þeir voru hræddir við að mistakast. Eða kannski af því að við kunnum enn ekki nógu vel að samfagna velgengni og árangri annarra.

Það er öllum ætlað eitthvað stórfenglegt í þessu lífi, það er mín einlæga og kannski barnalega trú. En þeir þurfa ekkert endilega að fyrirferðamiklir eða áberandi hæfileikarnir sem við búum yfir. Kannski bara það að láta öðrum líða vel. Það er stórkostlega vanmetinn eiginleiki. Sumir hafa þann hæfileika að dreifa gleði, fallegum orðum eða hlýju viðmóti hvert sem þeir fara. Sumir eiga ótrúlega auðvelt með að láta öðrum finnast þeir skipta máli. Og enn aðrir fá mann til að líða svo ótrúlega vel í sálinni eftir smá spjall. Þessir  eiginleikar vega líka mun þyngra þegar á reynir heldur en það að eiga og gera hluti sem vekja aðdáun annarra. Þó það sé gaman líka.

Værir þú annars til í að hafa í huga að fólkið sem þú ert að bera þig saman við (þér í óhag),  er yfirleitt að gera það nákvæmlega sama og þú. Það ber sig saman við aðra (sér í óhag) sem búa yfir eiginleikum og hæfileikum sem þau væru til í að hafa. Og það er ekkert ólíklegt að sé fullt af fólki að bera sig saman við þig vegna allra þinna dásamlegu eiginleika.   

Svo veistu bara hvað? Í dag ætla ég að dást að og dásama alla þína ótrúlega flottu og einstöku hæfileika, án þess að bera mig saman við þig. Í dag ætla ég að bera virðingu fyrir mínum einstöku eiginleikum, af því að núna veit ég að ég þarf ekki að vera duglegri, sætari eða skemmtilegri til að lífið verði eitthvað  betra. Ég er nóg, nákvæmlega eins og ég er. Þannig að í dag ætla ég hreinlega að leyfa mér að vera flottasta skvísan á facebook.

Hvernig varst þú annars að spá í að hafa þinn dag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband