Lykillinn að lífshamingjunni... og öllu hinu draslinu.

Ég elska bleikan, ég elska glingur og ég elska gjafir sem hafa persónulega þýðingu. Ég elska þegar ég horfi í spegil og finnst ég dáldið sæt. Mér finnst hún samt dásamlegust, tilfinningin þegar ég er sátt við sjálfa mig. Þegar það sem ég segi er í samræmi við það sem ég svo geri.  Ég elska þegar ég næ að tengist fólki og fæ að sjá raunverulegu manneskjuna – á bak við grímuna. Það gerirst auðvitað bara þegar og ef ég er sjálf tilbúin að taka mínar niður eigin varnir, hleypa fólki að mér og mæta þeim í einlægni. 

Einlægni reynist mörgum erfið, því þá þarf maður að sýna fólki  allt það sem maður hefur lagt svo mikinn metnað í að halda í felum. Þú veist, þann hluta sem manni langar bara hreinlega til að skera burt og losa sig alfarið við. Ummm, já og kannski líma svo í staðinn einhvað svo dásamlegt, hrikalega skemmtilegt og eftirsóknarvert. Eitthvað sem aðrir myndu  öfunda mann fyrir. Og auðvitað dásama í bak og fyrir. Hmnm... íslenski draumurinn, kannski?

Áður en ég hellti mér í þriggja ára þráhyggjukennda upplýsingasöfnun varðandi allt það sem gerir sambönd góð, hélt ég að ég væri meingallað eintak fyrir að þurfa á ást, athygli og umhyggju að halda. Ég hélt í alvöru að það væri merki um styrk, kraft og íslenskt sjálfstæði að vera bara sjálfri mér nóg. Svo ég bað þá náttúrulega engan um aðstoð, hvatningu eða falleg orð, þó svo að ég hefði oft þurft mikið á því að halda. Og ekki datt mér til hugar að láta einhvern vita ef ég beyglaðist eitthvað á sálinni. Ekki langaði mig til að vera stimpluð sem veiklunduð, þurfandi eða dramadrottning. Og mér fannst líka að ef fólki þætti í alvöru vænt um mig, þá ætti það einfaldlega finna á sér að mér liði illa. Svo ég var sterk, ég var dugleg og ég tók þetta á hörkunni. En mikið hrikalega var ég oft einmana.

Ég tók svo ákvörðun fyrir þremur árum að öll mín samskipti skyldu verða opin, einlæg og heiðarleg. Að ég myndi biðja um aðstoð ef ég þyrfti, segja frá þegar sjálfstraustið mitt beyglaðist eða geðheilsan yrði tæp. Sem sagt, að viðurkenna það fyrir mínum nánustu að ég væri frekar ófullkomið eintak (en ykkur að segja þá held ég að svoleiðis opinberum komi fólki aldrei neitt brjálæðislega mikið á óvart). En sjitt hvað það er búið að vera erfitt ferðalag. Og verandi mjög lokuð manneskja, þá á ég enn töluvert langt í land.

Ég hélt til að byrja með að einlæg, opin og heiðarleg samskipti fælust fyrst og fremst í því að vera opin með það hvernig manni líður og að vera ekki alltaf að fela allt hausaruslið og tilfinningadraslið sitt. En það sem ég þurfti að læra alveg frá grunni var að framkoma annarra hefur nákvæmlega ekkert með mig að gera. Það hefur allt viðkomandi einstakling að gera. Sú magnaða uppgötvun gaf mér færi á því að vera ekkert sérstaklega að taka nærri mér þegar fólk ákveður að mæta mér í pirringi og leiðindum. Ég halda áfram að vera glöð, sæl og sátt við mitt þrátt fyrir skapsveiflur og fýlupúkastæla annarra. Þvílíkt frelsi! En ég skal samt alveg viðurkenna að oft þegar fólk kemur illa fram við mig get ég verið ótrúlega fljót að gleyma þessum göfuga lærdómi og orðið drullufúl í smá stund.

Lykilinn að lífshamingjunni og öllu hinu draslinu fann ég í því að hætta að gera öðrum til geðs, hætta að reyna að breyta öðrum og með því að sýna sjálfri mér alla þá ást, virðingu og væntumþykju sem ég krafðist af öðrum. Það er nefnilega dáldið þannig að framkoma annarra er í beinu hlutfalli við það sem manni finnst maður sjálfur eiga skilið.

Þegar ég sýni sjálfri mér ást og virðingu þá finnst mér ég eingöngu eiga góða, elskulega og virðingarfulla framkomu skilið og sætti mig við ekkert minna. Ég vel að vera í kringum fólk sem kallar fram góðu, skemmtilegu og blíðu hliðarnar mínar. Sem sættir sig við að ég get verið óttarlegt kjánaprik. Ég vel fólk í kringum mig sem er gaman að hlægja með og sem ég á auðvelt með að eiga í einlægum, opnum og heiðarlegum samskiptum við.

Ég passa þá upp á mína gleði og umfram allt, huga ég að mínum eigin tilfinningum og tek ekki ábyrgð á líðan annarra. Ég þarf líka oft að passa mig á því að kenna ekki öðrum um hvernig mér liður. Þegar ég sinni mínum eigin þörfum og passa upp á að gera hluti sem gefa mér gleði, þá fylli ég á hamingjubrunninn minn. Að halda  gleði- og hamingjubrunninum mínum fullum er eina leiðin fyrir mig að gefið öðrum gleði, því með tóman tank hef ég nákvæmlega ekkert að gefa!

Ég sýni sjálfri mér ást og virðingu með því að sleppa tökum á samviskubiti og sektarkennd – hvort sem það kemur frá hausaruslinu mínu eða fýlupúkaárásum annarra. Ég fyrirgef sjálfri mér, því ég hef alltaf reynt að gera það sem ég gat, með það sem ég hafði og kunni, á þeim tíma. Ef ég hefði vitað betur, þá hefði ég klárlega gert betur. Alveg satt - ég lofa! Ég reyni eftir fremsta megni að sýna sama umburðarlyndi gagnvart mínu hausarugli og  tilfinningadrasli og ég er tilbúin að sýna öðrum. Og ég gef mér leyfi að detta niður í skapi, sjálfstrausti og gleði án þess að pirrast út í sjálfa mig fyrir.    

En umfram allt sýni ég sjálfri mér ást og virðingu, af-því-bara og þarf enga sérstaka ástæðu til. Bara af því að ég er svo dásamlega skemmtilega mannleg og á það bara svo innilega skilið. Já, bara svona alveg eins og þú!


Dagurinn sem ég bjargaði heiminum.

Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á því að það allra besta, í öllum heiminum, er að vera í gleði. Og Guð hvað ég man vel eftir þeirri dásamlegu tilfinningu að vera glöð yfir því einu að vera til. Hoppandi yfir blómabeðið á Vesturveginum, aftur og aftur og fram og til baka, af þeirri ástæðu einni  að það var bara svo hrikalega gaman.   

Hvort sem það er vegna erfða eða uppeldisaðstæðna, þá hef ég alltaf þurft að hafa fólkið í kringum mig í gleði svo ég geti sjálf geti leyft mér mína gleði. Það skyggir á gleðina ef einhver er reiður, pirraður eða leiður í kringum mig. Ég tala nú ekki um ef pirringurinn og ergelsið snýr að mér. Þá fæ ég samviskubit sem beyglar alltaf gleðina.

Sem barn ég ekki skilið hversu skelfilega gleðisnauð fullorðinsárin geta verið.  Hversu mikið það tætir gleðina að „bera ábyrgð“,  „vera raunsær“ og  að „standa sig í lífinu“. Ég hélt nefnilega í minni barnslegu einfeldni að þegar maður yrði fullorðinn og réði yfir sér sjálfur, að þá myndi  maður bara alltaf velja það sem gefa mesta gleði - og að sleppa því að gera það sem er ekki  jafn skemmtilegt.  Bara af því að það er svo gaman að vera í gleði.

En þetta er ekki alveg svona einfalt...  eða hvað?

Það getur verið dáldið flókið mál að langa það mest að öllu að vera í gleði og hafa gaman en geta það ekki  út af því að einhver annar er í vondu skapi. En þegar maður er úrræðagóður finnur maður margar góðar og sniðugar (en stundum algerlega fáránlegar) aðferðir til að gleðja þá sem halda góða skapinu manns í gíslingu. Ég hef látið ýmislegt yfir mig ganga og hef meira segja oft brotið á eigin sannfæringu fyrir þessa ótrúlega sterku  þörf fyrir að hafa fólkið mitt í gleði. Því þá loksins get ég einbeitt mér að minni gleði.  Sektarkennd og gleði eiga nefnilega enga samleið.  

Þegar það svo nægir ekki að breyta sjálfri mér til að „bjarga tilfinningum“ þessa fólks, þá reyni ég að breyta þeim sjálfum eða aðstæðum þeirra. Ég kem með ótrúlega sniðugar lausnir og hugmyndir (að eigin mati) til að þessir einstaklingar finni nú loksins gleðina sína . Ó hve ljúfir þeir dagar eru, þegar fólk gerir  bara eins og ég segi!  En ef þessi  björgunarleiðangur dugir heldur ekki til – þá verð ég reið og sár og stundum verulega pirruð.  Það er stór fórnarkostnaður á eigin lífsgleði og hamingju að taka ábyrgð á tilfinningum annarra.

Ég veit, ég veit – ég bjarga kannski ekki heiminum upp á mitt einsdæmi (missti mig pínu í dramanu í fyrirsögninni) en ég get klárlega gert heiminn að aðeins  betri stað til að búa á. Og það gerði ég klárlega daginn sem ég ákvað að það væri ekki mitt að bera ábyrgð á tilfinningum annarra. Að annað fólk velur sér sjálft sína líðan og ef það vill vera í reiði,  pirringi eða gremju – að þá megi þau það bara! Að mín ábyrgð snúist eingöngu um að hlú að minni eigin gleði og að sinna henni.

Þegar við erum að streða og reyna  að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að standa undir þessari helvítis „ábyrgð“ sem fylgir fullorðinsárunum, þá gleymum svo oft gleðinni. Við höfum ekki tíma fyrir hana, en þurfum samt svo tilfinnanlega mikið á henni að halda. Lífið er nefnilega ansi tómt án gleði.  Og svo kemur dagurinn sem maður fær nóg af streðinu og segir bara „Fokk-it! Lífið hlýtur að eiga bjóða upp á eitthvað  meira en bara þetta. Og við finnum eitthvað – bara eitthvað - sem gefur einhvað smá kikk í annars gleðisnautt líf. Eitthvað sem kannski særir aðra en við réttlætum það með því að halda því fram að við eigum líka rétt á því að vera glöð.

Við eigum öll rétt á því að vera glöð. Og ekki bara á sérstökum dögum og af sérstökum ástæðum, heldur mjög  oft og bara af því bara!

Elsku þú. Viltu hafa í huga það sem Ghandi sagði eitt sinn, að eina leiðin til að breyta heiminum væri með því  að breyta sjálfum sér.  Ímyndaðu heim þar sem allir sinna sínu. Sjá um sína eigin gleði –  með gleði og í gleði.  Með vúhú-um og vííí-um og „ómægod“-dramaöskrum fyrir allan peninginn. Hversu dásamlega skemmtilegur heimur væri það að búa í?  En ekki samt misskilja mig - ég er ekki að tala um að gera hluti sem særa eða meiða eða láta þig fá samviskubit - það veitir engum sanna gleði. Ég er að meina að finna hvað það er sem þér finnst gaman að gera,  það sem kallar fram bestu hliðarnar þínar og lætur þig finnast þú  vera skemmtilegasti og áhugaverðasti einstaklingurinn sem þú þekkir – það sem lætur þig líða alveg ótrúlega vel með sjálfan þig - og gera það svo oft.

Elsku þú. Fyrir börnin þín og fjölskylduna, fyrir vini þína og alla hina. Ertu þá til í að setja gleði þína í forgang. Ef þú hugar að þinni gleði, þá geta hinir einbeitt sér að sinni gleði. Gleði (alveg eins og vont skap) er ótrúlega smitandi og hún kallar fram bestu hliðarnar okkar. Þó ég sé ekki hrifin af því að líkja fólki við skít, þá get ég samt lofað þér því að þú yrðir sennilega eins og þessi margfræga mykjuskán sem mýið sópast að. Það er sjaldgæfur eiginleiki að dvelja  í gleði og við sækjumst óhjákvæmilega  í þá sem okkur líður vel í kringum.

Elsku þú. Fyrir sjálfan þig – ertu þá til í að taktu áhættu og gera eitthvað ótrúlega skemmtilegt. Gera eitthvað klikkað, eitthvað sem fær þig til að finnast lífið vera þess virði að lifa því. Ég veit nefnilega af eigin reynslu hversu lífshættulegt það er að svelta lífið allri gleði. Gerðu það sem gefur þér gleði, gerðu það oft og gerðu það þar til að þér dettur ekki í hug að gera neitt annað.

Því þá fyrst veistu hvað það er að lifa.  


Að strippa á sálinni

Þar sem ég er pínu feimin og óframfærin og finn nokkuð reglulega fyrir fólksfælni, þá á ég nokkrar „grímur“ til að setja upp þegar ég þarf að fara í búð (og er engan vegin stemmd fyrir það), þegar ég er að hitta fólk í fyrsta skipti og veit ekkert hvernig ég á að vera eða (Guð forði mér frá þeim aðstæðum) ef ég þarf að biðja um aðstoð. Þessar grímur eru mér algerlega lífsnauðsynlegar því annars myndast hætta á því að ég bókstaflega andist úr feimni og vandræðagangi. Grímurnar mínar eru margskonar; fyndnar, skilningrsríkar eða jafnvel stundum pínu hrokafullar. Svo á ég líka afar kurteisa grímu sem ég nota þegar ég veit ekki hverja af hinum ég á að setja upp. Þá er ég pínu stíf, gef ekkert sérstaklega mikið af mér og passa mig umfram allt að segja alls ekki neitt óþægilegt eða óviðeigandi. Best er þó þegar ég næ að snúa umræðuefninu upp á viðmælanda minn því þá er mér óhætt. Í bili allavega.  

Svona grímusamskipti eru mjög yfirborðskennd, þú veist, bara gríman mín að eiga samskipti við grímuna þína. Þetta eru eru örugg, þægileg og einföld samskipti. Ekkert persónulegt sem fer okkur á milli.  En yfirleitt er það þannig samt að ef okkur líkar við mannseskjuna og við treystum henni, förum við þá kannski að gefa aðeins meira af okkur. Þú veist, að segja frá einhverri persónulegu og verði maður ekki skotinn á staðnum með kaldhæðni eða hneysklun, þá fer maður hugsanlega að þora að opna á sífellt viðkvæmari hluti – jafnvel að segja frá því sem manni hefur alltaf langað að gera og af hverju maður þorir ekki. En það er dáldið mjög persónulegt, sko.

Ástæðan fyrir feimninni minni og því að ég set upp þessar grímur er að ég er oft drulluhrædd við  annað fólk. Eða sko áliti þeirra á mér. Ég er svo hrædd um að ef ég segi eða geri eitthvað sem annað fólk er ósammála eða jafnvel bara ósátt við, að þá vilji það ekki lengur eiga samskipti við mig. Ég bý nefnilega yfir þeirri kjánalega barnalegu löngun til þess að öllum líki vel við mig. Mér finnst það nefnilega svo andskoti góð tilfinning. Og á meðan ég er svona hrædd við það að öðrum mislíki við mig, þá á ég  mjög erfitt að segja það sem mér raunverulega finnst og það sem mig langar og ég er líka hrædd um að ef ég segi einhverjum frá öllu því sem ég óttast - að það verði notað það gegn mér. Kannski sagt að ég sé, þú veist, barnalega kjánaleg.

Það hræðir mig ofsafengið að opna hjartað á þennan hátt og opna á almenna gagnrýni. Mér finnst það ekki bara vond tilfinning, heldur finnst mér ég vera algerlega varnarlaus; með sálina mína nakta. Ég er nefnilega stundum svo hrædd um að fólk sem mig langar til að umgangast, vilji ekki frekari samskipti við mig ef það þekkti mig í alvörunni. Ef það vissi um allt hausaruslið mitt og öll litlu ljótu leyndarmálin mín. Allt þetta sem ég skammast mín fyrir.

En ég veit líka að ef ég leyfi ekki fólki að kynnast mér eins og ég er, þá mun hún halda áfram að fylgja mér þessi gargandi þörf mín fyrir nánd, innileika og einlægni.  Ég er búin að vera á þeim stað alltof lengi og það eina sem það hefur fært mér er einmannaleiki og enn meiri ótti.

Fyrir nokkru tók ég því þá ákvörðun um að vera eins mikið ég sjálf og ég þori. Nei, ég fer í raun og veru oft langt framyfir það sem ég þori og er þessa dagana mjög oft með „æ-fokk-it-hvað-í-helvítinu-var-ég-að-gera“ tilfinningu. En alltaf, sko ég meina alltaf, hefur það samt verið helmingi betri tilfinning en þessi æpandi tómleiki sem fylgdi mér áður.

Þegar ég er í góðu jafnvægi þá er ég stanslaust að leita að leiðum til að gefa ást og allt sem felst í því orði. Falleg orð, gjafir, viðurkenningu, aðdáun, knús eða hvatningu.  Með hjartað bókstaflega barmafullt af gleði, hamingju og þakklæti, veit ég ekkert betra en að dreifa og deila þessari gleði minni.

Þegar ég hins vegar dett úr mínum málum og kem mér fyrir í hausnum á öðru fólki, þá fer ég undantekningarlaust í óttann minn, finn fyrir kvíðatilfinningu og er stöðugt að leita eftir staðfestingu á því að ég sé elskuð og að fólki líki við mig. Þá hef ég líka átt það til í örvæntingu minni  að yfirgefa sjálfa mig til að ganga úr skugga um að ég fái alla þá ást, umhyggju og væntumþykju sem mig svo sárlega vantar og reynist mér hrikalega erfitt að biðja um.

Með þetta í huga, reyni ég að mæta fólki á sama hátt. Ef ég verð fyrir dónaskap eða öðrum leiðindum, þá er ég yfirleitt nokkuð fljót að átta mig á því að það hefur ekkert með mig að gera. Að þeim vantar einfaldlega knús, falleg og uppörvandi orð eða staðfestinguna á því að þau séu líka nóg. Þá er auðvelt að gefa fólki það sem það á erfitt með að koma í orð; ást og væntumþykju.

Þegar ég tek sénsinn, tek niður grímuna og er ég sjálf, þá veit ég að annað hvort mætir fólk mér og gerir það sama eða þá að það velur að vera ekki í samskiptum við svona kjánaprik sem lætur allt flakka. Sem spáir og spögulerar í fáránlegustu hlutum og býr enn yfir þeirri barnalegu þörf að langa til þess að öllum líki vel við sig. Ég geri mér grein fyrir því að þegar ég vel að sýna mitt rétta andlit og geri og segi hluti sem skipta mig máli, þá mun líklega einhver, einhverntíma hafna mér og ekki vilja vera í frekari samskiptum við mig. Það sem ég hef hins vegar lært á undanförnum mánuðum er að það er allt í lagi.  Mér finnst hvort eð er svo miklu betra að vera í samskiptum við fólk sem finnst ég dásamleg – akkúrat eins og ég er.

Hoppandi hlýjar nýjárskveðjur til þín, með von fullt af dásamlegum „æ-fokk-it-mómentum“ á komandi ári.

 


Flottasta skvísan á Facebook

Ein erfiðasta lífsreynslan sem ég hef nokkurn tíma lent í er að vera hafnað. Fyrir suma er það höfnun að vera sagt upp í starfi eða vera ekki boðið með þegar vinahópurinn gerir eitthvað saman. Fyrir mig var það að vera skilað. Ég fékk þá tilfinningu að það sem ég var eða hafði yfir að búa, væri ekki nóg. Þetta er skelfilega tætandi, meiðandi og eyðileggjandi tilfinning sem er samt fáránlega auðvelt að ættleiða. Við erum nefnilega mjög dugleg  að bera okkur saman við aðra og það sem þeir eiga, hafa, geta og gera.

Við búum til í huganum hinn „fullkomna einstakling“ sem kann allt og getur og svo miðum við okkur við hann. Það kemur auðvitað ferlega á óvart að það sé okkur í óhag. Við erum aldrei nóg ef við ætlum að bera okkar eiginleika saman við flottustu eiginleika allra þeirra sem við þekkjum.  Og bara með því að fara á facebook eða á lífsstílssíður netmiðlanna erum við stöðugt að sjá fréttir af fólki sem skarar fram úr á einhverju sviði. Við sjáum töff týpur sem eiga og eru að gera flotta hluti og hafa hæfileika á sviðum þar  sem við erum... tja, ekkert svo sérstök.

Ég sé einstaklinga sem eiga ótrúlega falleg heimili og hafa nenning fyrir allan peningin til þess að baka og elda góðan (allavega mjög girnilegan) mat. Ég sé fólk sem finnur sér tíma til að leika sér með vinum eða fjölskyldunni og eru duglegir að ferðast innanlands sem utan. Fólk sem á maka eða börn sem eru svo hrikalega dásamleg að það hálfa væri eiginlega nóg (fyrir okkur hin, sko). Ég sé fólk sem er endalaust duglegt í ræktinni og lítur alveg svakalega vel út. Svo á ég líka vini sem eru sjúklega flottir listamenn, hvort sem það er með því að mála, syngja eða setja saman setningar á hreint snilldarlegan hátt.  Og ég sé einstaklinga sem eru í hrikalega gefandi og skemmtilegri vinnu eða eru að stunda hættulega heillandi áhugamál.

En það sem ég sé hins vegar ekki, er fólk sem er þetta allt í senn. Við sjáum bara brotabrot af lífi fólks. Við sjáum það sem fólk setur fram til sýnis – sem eru yfirleitt allra flottustu eiginleikar hvers einstaklings. En við eigum auðvitað öll okkar ekki-svo-frábæru-eiginleika. Og hjúkket með það, því hver þarf á „fullkomnum“ vinum að halda? Það er í félagsskap þeirra sem þora að sýna bæði alla sína dásamlegu og líka „ekki-svo-frábæru“ eiginleika, að við finnum að við erum nóg. Og jafnvel bara nokkuð skemmtileg, fyndin og dásamleg.

Það getur hins vegar verið erfitt að koma úr skápnum með það að maður sé góður í einhverju. Jafnvel kannski bara mjög góður. Því hvað er það annað en mont, hroki eða mislukkuð tilraun til að vera flottastur á facebook? Við erum nefnilega oft ekki alveg tilbúin að samgleðjast velgengni og árangri annarra. Sem verður til þess að fólk heldur sig frekar inni í skápunum sínum og þægindakössum, frekar en að leyfa okkur hinum að njóta góðs af þeim einstökum eiginleikum og hæfileikum sem það býr yfir.

Ég var ekki bara kvíðin, heldur nánast lömuð af skelfingu yfir því að fara birta það sem ég skrifa. Eins og það sé einhver að fara nenna að lesa það sem ég hef að skrifa? En Guði sé lof fyrir allt dásamlega fólkið mitt, því mér var sparkað allhressilega úr þægindakassanum með þeim orðum að mesta eigingirnin í öllum heiminum væri sú að leyfa ekki öðrum að njóta þeirra hæfileika sem í manni búa.

Pældu í því hve sorglega fátækur heimurinn væri ef fólk héldi hæfileikum sínum útaf fyrir sig og deildi þeim ekki með öðrum. Og pældu líka í því hversu mörgum hæfileikum hefur verið sóað hjá öllum þeim sem þorðu ekki. Kannski vegna þess að þeir voru hræddir við að mistakast. Eða kannski af því að við kunnum enn ekki nógu vel að samfagna velgengni og árangri annarra.

Það er öllum ætlað eitthvað stórfenglegt í þessu lífi, það er mín einlæga og kannski barnalega trú. En þeir þurfa ekkert endilega að fyrirferðamiklir eða áberandi hæfileikarnir sem við búum yfir. Kannski bara það að láta öðrum líða vel. Það er stórkostlega vanmetinn eiginleiki. Sumir hafa þann hæfileika að dreifa gleði, fallegum orðum eða hlýju viðmóti hvert sem þeir fara. Sumir eiga ótrúlega auðvelt með að láta öðrum finnast þeir skipta máli. Og enn aðrir fá mann til að líða svo ótrúlega vel í sálinni eftir smá spjall. Þessir  eiginleikar vega líka mun þyngra þegar á reynir heldur en það að eiga og gera hluti sem vekja aðdáun annarra. Þó það sé gaman líka.

Værir þú annars til í að hafa í huga að fólkið sem þú ert að bera þig saman við (þér í óhag),  er yfirleitt að gera það nákvæmlega sama og þú. Það ber sig saman við aðra (sér í óhag) sem búa yfir eiginleikum og hæfileikum sem þau væru til í að hafa. Og það er ekkert ólíklegt að sé fullt af fólki að bera sig saman við þig vegna allra þinna dásamlegu eiginleika.   

Svo veistu bara hvað? Í dag ætla ég að dást að og dásama alla þína ótrúlega flottu og einstöku hæfileika, án þess að bera mig saman við þig. Í dag ætla ég að bera virðingu fyrir mínum einstöku eiginleikum, af því að núna veit ég að ég þarf ekki að vera duglegri, sætari eða skemmtilegri til að lífið verði eitthvað  betra. Ég er nóg, nákvæmlega eins og ég er. Þannig að í dag ætla ég hreinlega að leyfa mér að vera flottasta skvísan á facebook.

Hvernig varst þú annars að spá í að hafa þinn dag?


Listin að klúðra samböndum

 

Jesús, hvað ég vildi óska þess að ég væri að skrifa grein með fyrirsögninni  „Listin að láta sambönd ganga“.  En á meðan það er ekki í reynslubankaum mínum, er erfitt fyrir mig að skrifa þannig grein. Ég get hins vegar gefið nokkur öflug og góð ráð um hversu auðvelt það er að klúðra samböndum  og samskiptum. 

 

Formúlan er þessi:  slatti af tilfinningadrasli (svo þú segir nú örugglega fáránlega og kjánalega hluti),  böns af hausarusli (svo þú takir öllu á versta veg og rangtúlkir pottþétt allt sem sagt er) og passaðu þig bara á að ræða ekkert óþægilegt svo það sé enginn hætta fyrir hendi á því að nokkur misskilningur verði leiðréttur. 

 

Samskipti eru afskaplega viðkvæmt fyrirbæri þar sem ekkert feilspor má stíga án þess að það hafi verulegar afleiðingar. Samskipti gefa yfirleitt engan sveigjanleika á vondu skapi eða hugsunarlausu tilsvari,  án þess að við bregðumst við í vörn og  tökum hlutunum persónulega.

 

Við segjum allt of oft hluti sem við sjáum eftir og reynum svo að klóra í bakkann með því að réttlæta okkur eða kenna hinum aðilanum um. Við miskiljum, rangtúlkum eða bregðumst of harkalega við þegar einhver segir eitthvað sem rifjar upp leiðindartímabil eða kveikir á óþægilegum tilfinningum.  Við erum líka ótrúlega dugleg að safna í gremjupokann í stað þess að segja það sem okkur finnst. Og svo þegar við höfum fengið nóg þá springum við og látum fólk „sko aldeilis heyra það“.

 

Við segjum og gerum kjánalega hluti, bara til að fá það staðfest frá öðru að við séum dásamleg, sæt og skemmtileg og til að fá að heyra að við séum elskuð og að við séum nóg. Við „prófum“ fólk til að sjá hvort það sé til staðar þegar við þurfum á þeim að halda. Ef við verðum svo fyrir vonbrigðum reynum við að „laga fólkið til“ með tuði, nöldri, gagnrýni eða fýlu.

 

Flestir sætta sig við að vera í „ágætissamböndum“ þar sem hlutirnir eru með þeim hætti að það er yfirleitt aðeins meira af góðum hlutum en slæmum. Í ágætissamböndum þarf maður bara að passa sig á því að ræða ekkert óþægilegt til að rugga ekki bátnum, svo að slæmu hlutirnir vegi ekki þyngra en þeir góðu. Og þegar maður er að passa upp á þetta viðkvæma jafnvægi - þá er náttúrulega fáránlegt  að segja frá einhverjum helvítistímabilum og öllu hausaruslinu.  Í ágætissamböndum kemst maður upp með því að þegja yfir öllu þessu óþægilega sem maður hefur gert, sagt eða lent í  og enginn þarf að vita af öllum þessu  ljótu og leiðinlegu tilfinningum sem maður er endalaust að burðast með (afbrýðisemina, minnimáttarkenndina, óöryggið og allan sársaukann). Maður lítur þá allavega ekki út fyrir vera kjáni eða veiklundaður á meðan.  Það eina slæma við ágætissamböndin er maður er þá bara stundum hamingjusamur.  Þú veist – á meðan hlutirnir eru góðir.

 

Einu sinni fannst mér mjög eðliegt að eiga bara í ágætissamböndum og –samskiptum við fólk.  Ég passaði að enginn fengi að sjá hversu óörugg ég var eða hversu mikið mér sárnaði stundum framkoma annarra. Það fékk enginn að sjá sársaukann minn. Það var líka miklu auðveldara að segja  „ekkert!“ eða „skiptir ekki máli!“ í staðinn fyrir að segja hvað var raunverulega var í gangi hjá mér.  Svo er líka miklu auðveldara að láta sem ekkert sé og að allt sé í góðu, þó maður viti yfirleitt betur. Tilhugsunin um að hafa klúðrað einhverju er hrikalega óþægileg og það er líka vont að þurfa að viðurkenna að manni hafi orðið á.

 

Í hvert sinn sem eitthvað er órætt og ósagt á milli fólks, þá visna tengslin á milli þeirra.  Samskipti er eins og fallegur verðlaunagarður sem verður illa hirtur af afskiptaleysi. Við söfnum arfa og órækt í samböndin okkar með ósögðum orðum og óspurðum spurningum og stundum þarf maður einfaldlega að róta í drullunni til að halda hlutunum góðum. 

 

Það er vont og fer illa með sálarlífið að vera í illa hirtum samböndum. Ég hef lært hversu auðvelt það er að klúðra samskiptum og samböndum með því að spyrja ekki óþægilegra spurninga og koma sér undan því að svara álíka óþægilegum spurningum. Ég hef líka lært að á meðan maður tjáir sig ekki eða lætur eins og ekkert sé þegar manni sárnar, þá er ekki hægt að leiðrétta neinn misskilning. Á meðan maður segir ekki frá sársaukanum, hausaruglinu og öllum þeim erfiðleikunum sem hafa haft áhrif á mann, þá skilur enginn allt tilfinnindraslið sem maður er að burðast með.  Misskilningur kemur alltaf frá hinu ósagða og það er svo ótrúlega gott fyrir sálarlífið að eiga í opnum og heiðarlegum samskiptum við annað fólk. 

 

Ég er óendanlega þakklát fyrir þá sem hafa kennt mér hversu  auðvelt það er að hreinsa til í samskiptum þegar viljinn er til staðar. Viljinn til að leita eftir því hvar misskilningurinn liggur og viljinn til að bæta fyrir brotið og biðjast afsökunar þegar það á við. Mig langar að nota tækifærið til að lýsa yfir virðingu minni  og aðdáun til þeirra sem leita með þessum hætti eftir því að hafa samskiptin sín góð og einlæg, þrátt fyrir að það sé stundum bæði erfitt og óþægilegt. Það er nefnilega svo miklu auðveldara að bregðast við því sem aðrir segja og gera (og oft í sársauka og illindum) heldur en að skapa sín eigin samskipti eins og maður vill hafa þau.

 

Ef þú ættir stutt eftir ólifað, hvað myndir þú vilja að fólkið þitt vissi um þig og skildi í þínu fari? Hvað áttu eftir ósagt? Hvaða misskilning myndir þú vilja leiðrétta og hvaða samskipti myndir þú vilja hafa betri?

 

Eftir hverju ertu að bíða?

 

Með von um dásamlegan dag í drullumalli, arfatínslu og almennu hausaruslshreinsunarstarfi.

 

 


Stórkostlega gallað kjánaprik

Hún er vond sú tilfinning þegar einhver sér óvart hluta af manni sem maður hefur eftir fremsta megni reynt að fela fyrir öðrum. Ég hef næstum misst af Herjólfi þrisvar (get eingöngu skrifað það á kjánaskap og kæruleysi) og hef einu sinni meira að segja tekist það. Klárlega ekki það versta sem ég hef gert, en samt eitthvað sem ég skammast mín smá fyrir. Ég hef hins vegar staðið úti á miðri umferðargötu, á háannartíma og gargað úr mér lifur og lungu og látið allra ljótustu orðin sem ég kunni falla á manninn sem ég elskaði, fyrir framan átta ára gamlan son minn. Ég týndi fimm ára syni mínum í Smáralindinni og fór eitt sinn á tjúttið í Reykjavík á meðan sami sonur, sem þá þriggja ára gamall, var að jafna sig eftir hálskirtlaaðgerð hjá frænku minni. Allt hlutir sem ég skammast mín verulega fyrir og hefði svo gjarnan vilja sleppa við að hafa gert... eða allavega verið til í að enginn hefði vitað af. Ef nú bara ég hefði verið skynsamari, betri eða ábyrgðarfyllri...

Það verður öllum á og það gera allir mistök. Með þeim orðum fyrirgaf yngsti sonur minn mér. Þegar okkur verður á og við gerum hluti sem við erum ekki stolt af eða hreint og beint skömmumst okkar fyrir, þá eru fyrstu viðbrögðin að reyna að fela það fyrir öðrum. Vona heitt og innilega að engin komist að þessu. Af hverju? Jú, af því að við hræðumst svo hrikalega hneykslun, fordæmingu og setningar eins og „...sko, svona gerir maður bara ekki“.

Ég vil svo gjarnan vera álitin góð manneskja því ég tel mig í flestum tilfellum vera það. En ég geri mín glappaskot, ég geri mistök og mér verður á. Ég geri og segi stundum hluti sem vildi oft óska að ég hefði sleppt.  Ég er hins vegar svo óendanlega heppin að eiga góða vini og fjölskyldu að sem minna mig stöðugt á hversu mikils virði ég sé þeim, þrátt fyrir kjánaskap og heimskupör. Nánast allir þeir sem ég vel að hafa í kringum mig, viðurkenna fúslega samskonar mannlega bresti og svipaðar vitleysur - jafnvel stundum eitthvað töluvert verra.

Guð blessi dásamlega vini og yndislega fjölskyldu, því svoleiðis orð gera það að verkum að ég get fyrirgefið sjálfri mér heimskupörin og hætt að brjóta mig niður fyrir kjánaskapinn, sleppt skömminni og fundið kjarkinn til vera ég sjálf.  Það er nefnilega svo átakanlega sár tilfinning, að finnast maður vera valda öðrum vonbrigðum eða mistakast. Svo hrikalega vont að maður reynir eftir bestu getu að fela það sem gert var, í það minnsta reynir maður að gera sem minnst úr hlutunum eða réttlæta sjálfan sig.

Í samfélagi sem gefur ekki sveigjanleika í mannleg mistök og kjánaskap, þá setjum við upp flotta og fullkomna grímu  til að sannfæra allt og alla um hversu gallalaus við erum. Við búum í samfélagi þar sem við þorum ekki að sýna okkar raunverulega sjálf og gera það sem okkur langar að gera af  ótta við áliti annarra.

En af hverju erum við svona berskjölduð fyrir neikvæðu áliti annarra?

Af því að það erum við sjálf sem erum þetta neikvæða álit og við vitum alveg upp á okkur sökina í þeim efnum, þrátt góðan vilja, og verðum þar af leiðandi afskaplega viðkvæm fyrir því sjálf. Það erum við sjálf sem jöplum á nýjustu hneykslissögunum eins og sælgæti og það erum við sjálf sem höfum stöðugar skoðanir á útliti og hegðun annarra. Það er því kannski engin furða að fólk sé stöðugt að reyna að fegra sig í augum annarra, hvort sem það er með að setja upp hina fullkomnu grímu eða með því að notast við einhver „öpp“.

Kjaftasögur og „útlitsdýrkandi lífsstílsvefir“  væru ekki til ef við værum ekki tilbúin að hlusta. Framboðið er einungis í samræmi við eftirspurn og það erum við sjálf sem veitum þessa eftispurn með því að vera stöðugt að taka þátt í gagnrýni og bjóða fram skoðunum  á hegðun, útliti og framkomu samferðarmanna okkar.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að við þorum oft ekki að horfast í augu við mannlegu brestina okkar, heimskupörin og mistökin sem við gerum - eins og allir hinir. Við þorum ekki að taka áhættuna og taka niður grímuna og treysta því að fólki líki við okkur eins og við raunverulega erum og þrátt fyrir öll heimskupörin. Þess í stað sýnum við heiminum tilgerðarlega, gallalausa og afar yfirborðskennda útgáfu af okkur sjálfum og gerum þær kröfur að fólk hagi sér óaðfinnanlega, geri aldrei mistök og verði aldrei á. Við hendum  grjóthnullungum úr fallegum glerhúsum okkar í stórum stíl.

Ég dáist endalaust að þeim einstaklingum sem hafa kjarkinn og þorið til að kasta af sér „grímunni“, vera það sjálft og segja slitið við álit og skoðanir samfélagsins. Það er eitt stórkostlegasta frelsi sem hægt er að upplifa.

Við skrift þessa pistla hef ég öðlast ómældan styrk, kjark og þor til þess að losa mig sífellt meira undan skoðunum og áliti annarra. Það hefur gefið mér skemmtileg samtöl, mörg einlæg og falleg orð og tækifæri til að kynnast ótrúlega skemmtilegu og áhugaverðu fólki. Ég veit líka að þegar ég opinbera heimskupör mín og kjánaskap, fæ ég slíkt hið sama frá öðrum.  Og það hefur fært mér eitt það dýrmætasta sem lífið getur veitt; raunveruleg og innileg samskipti og tækifæri til að kynnast öðrum sem og sjálfri mér enn betur.   

Megi dagurinn í dag gefa þér sömu tækifæri, með þeirri von um að þú finnir kjarkinn þinn til að treysta fólkinu þínu fyrir sjálfum þér og einhverju af hausaruslinu þínu. Megi dagurinn í dag einnig gefa þér skilning og umburðarlyndi fyrir heimskupörum vina þinna og ættingja (og það er örugglega af nógu að taka) og að þú hlustir á sögu þeirra af forvitni í stað gagnrýni. Megi dagurinn í dag gefa þér að lokum fallegar, raunverulegar og innilegar samverustundir og vináttu við þína nánustu.

Með ást, gleði og taumlausri hamingju frá meingölluðu kjánapriki úr Vestmannaeyjum.


Ef ég bara þyrði...

Ég elska September. Sko plötuna hans Bergsveins. Og þó ég syngi kannski ekki vel, þá elska ég nú samt að syngja með. Af öllum lífs og sálar kröftum. Ég elska að setja Pink í botn og dansa með -  eins og engin sé að horfa. En ég lít samt alltaf í kringum mig til að athuga hvort ég sjái einhvern. Þú veist, að horfa. Mér þykir nefnilega enn pínu vont að vera álitin kjánaleg.

Ég er dáldið feimin og er bara ekki alveg komin á þann stað að vera sama um hvað fólki finnst. Eina ástæðan fyrir því að ég fæ mér í glas er sú að það losar um hömlur og hleypir ófeimnu útgáfunni af sjálfri mér fram. En svona í seinni tíð er mig samt farið að gruna að fólk pæli minna í mér en ég ætla. Það gæti jafnvel, hugsanlega, kannski verið að fólk ætti bara nóg með sjálft sig og hafi jafnvel bara ekki tíma, orku eða nenning í að vera endalaust að spá í mér og því sem ég er að gera.

Við pælum nefnilega ofboðslega mikið í því hvað öðrum finnst, sérstaklega ef við teljum okkur ekki standa undir eigin væntingum.  Við tökum flottustu og eftirtektarverðustu eiginleikana hjá öðrum og miðum okkur við það. Niðurstaðan er yfirleitt sú sama; hversu meingölluð og ótrúlega ófullkomin við erum. Allir þeir eiginleikar sem við dáumst að í fari annarra – þú veist, hvað hún Sigga er ótrúlega falleg (með flottan kropp og hvað hún er einstaklega dugleg í ræktinni),  hvað hann Jón er hrikalega rómantískur (hann er alltaf að gefa konunni sinni eitthvað og-veistu-bara-hvað, hann kveikir meira að segja á kertunum fyrir hana) og hvað hún Gunna er nú dugleg í eldhúsinu (ómægod, það er ekki nóg með það að hún eldi sjúklega góðan mat, þetta er allt saman glútleinlaust) – þetta er einfaldlega eins og toppurinn á ísjakanum. Við viljum nefnilega svo gjarnan að fólk sjái bara sparihliðarnar okkar – þær hliðar sem við viljum að aðrir dáist að og dásami okkur fyrir.

Við eigum öll svo marga dásamlega, skemmtilega og jafnvel eftirsóknaverða eiginleika. En við eigum líka allt hitt sem við reynum eftir fremsta megni að fela fyrir öðrum því við viljum ekki vera talin  minniháttar ef það sést glitta í mannlegu brestina okkar. Í raunverulegu manneskjuna sem er bak við grímuna sem við setjum upp dags daglega til að öðlast aðdáun annara. Það eru samt allir með einhvern farangur úr fortíðinni. Eitthvað sem við hræðumst, skömmumst okkar fyrir eða erum óörugg með. Og það er einmitt þessi farangur sem kemur í veg fyrir að við þorum að fleygja öllum dásamlegu eiginleikunum upp á yfirborðið, láta reyna á hæfileikana og gera grín af göllunum okkar og öllum mannlegu brestunum.

Þessi ótti og óöryggi  gera það að verkum að við verðum sár og reið þegar einhver gagnrýnir okkur. Og þá er nú miklu betra að vera bara í þægindakassanum – þar þarf maður allavega ekkert að reyna neitt nýtt eða óttast hvað aðrir hafi um mann að segja.

En hvernig væri lífið öðruvísi ef maður væri ekki hræddur, óöruggur eða velta sér upp úr áliti annarra? Ég er búin að vera að pæla dáldið í þessu - hvernig mitt líf væri öðruvísi ef ég þyrði bara að láta vaða og hætta að spá í „hvað ef“. Og ég velti líka fyrir mér hverju ég fengi áorkað ef ég væri algerlega laus við óttann um höfnun eða við að mistakast.

Þetta er dáldið mögnuð spurning, því ég er farin að sjá það að möguleikarnir mínir eru nánast takmarkalausir. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það eina sem stoppar mig er óöryggið mitt og efinn um hver ég haldi nú eiginlega að ég sé, að ætla mér þetta eða hitt. En ég er líka farin að sjá það að fólk kann betur við mannlegu, dásamlegu og kjánalegu skvísuna sem ég er, heldur en fullkomnu og gallalausu útgáfuna sem ég reyndi svo lengi að verða. Það sjá flestir nokkuð auðveldlega í gegnum allt svoleiðis fals.

En ef ég væri hins vegar með fullt hús sjálfstrausts, væri fullgildur meðlimur í „mér-er-alveg-sama-þótt-allir-séu-að-hlægja-að-mér“ félaginu og væri ekki hrædd við að vera álitin ófullkomin,  þá væri ég löngu farin með rauðvínshandbókina mína til útgefanda (hún er nefnlega alveg hrikalega flott).  Ég væri búin að senda einhverjum hjá Huffington Post bréf til að athuga af hverju í ósköpunum þeir væru ekki farnir að birta pistlana mína og ég væri líklega í öllum skólum að halda fyrirlestur um hvaða afleiðingar hausarusl og tilfinningadrasl hefur á líkamlega og andlega líðan. Og um það hversu dásamleg samskipti geta verið þegar við þorum að stíga út fyrir óttann. Ég þyrfti þá heldur ekki að fá mér bjór (eða tvo) til að losa um hömlur til að verða (kannski bara aðeins pínulítið) skemmtilegri.  Ég gæfi mér þá einfaldlega leyfi til vera sá kjáni sem ég raunverulega er.

Ef ég hefði hugrekkið með mér í liði leyfði ég hjartanu oftar að ráða för. Þá færi ég á þessi deit sem mér hafa verið boðin. Ég myndi þá líka jafnvel, hugsanlega, kannski þora að verða hrifin aftur. Ég  myndi hoppa af kæti, garga af gleði og syngja úr mér lungun næst þegar hundurinn færi með mig í göngu suður á eyju – án þess að líta í kringum mig og athuga hvort það væri einhver að horfa. Og ég myndi klárlega gera mitt allra besta til að fá Bergsvein til að vera með tónleika á Háaloftinu.

Eins og ég sé þetta þá hef ég núna um tvennt að velja; að tækla óttann og segja skilið við ef-ég-bara-hefði hugsanir, eða ég get haldið áfram að leyfa óttanum að ráða för og setið uppi með fjandans eftirsjána.  

Eins og spekingarnir segja, að þá eru það ekki hlutirnir sem við gerum sem við sjáum eftir, heldur það sem við gerðum ekki.

Svo, Beggi...  hvað segir þú annars um tónleika í Eyjum í vetur?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband